Íslenski boltinn

Gaupi hitti Hólmbert á sjúkrabekknum: Gæti verið frá í allt að sex vikur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hólmbert Aron Friðjónsson, framherji Stjörnunnar, var borinn af velli í síðari hálfleik á móti ÍBV í annarri umferð Pepsi-deildar karla í fótbolta. Hann segist hafa óttast það versta þegar það gerðist.

„Ég hélt að krossbandið væri farið því sársaukinn var svo mikill. En svo var ekki,“ segir hann í viðtali við Guðjón Guðmundsson sem hitti hann hjá sjúkraþjálfara í morgun.

Hólmbert, sem var búinn að skora tvö mörk þegar hann varð fyrir meiðslunum, segir betur hafa farið en á horfðist í fyrstu. Hann verður í meðferð hjá sjúkraþjálfara næstu vikur.

„Ég ímyndað mér það versta en ég fékk jákvæðar fréttir,“ segir Hólmbert en hvað fer í gegnum huga manna þegar að svona gerist? „Ég veit það ekki. Tímabilið var nýbyrjað og það er stutt. Ef maður lendir í 1-2 mánaða löngum meiðslum er tímabilið bara búið.“

Hann vonast til að vera ekki lengi frá: „Það kemur betur í ljós eftir nokkra daga en ég hef heyrt tvær til þrjár og allt upp í sex vikur. Ég heyrði tvær og þá er markmiðið sett á tvær,“ segir Hólmbert Aron Friðjónsson.

Allt innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×