Viðskipti erlent

Kaupþing fái ekki meira en 100 milljónir punda fyrir verslanir sínar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fatakeðjurnar þrjár hafa verið metnar á undir hundrað milljónir punda, sem samsvarar tæplega 14 milljörðum íslenskra króna.
Fatakeðjurnar þrjár hafa verið metnar á undir hundrað milljónir punda, sem samsvarar tæplega 14 milljörðum íslenskra króna. vísir/stefán
Gert er ráð fyrir að Kaupþing fái undir hundrað milljónir punda fyrir fataverslanir sínar Coast, Warehouse og Oasis. Þá er talið að væntanlegir eigendur muni loka nokkrum verslunum sínum í Bretlandi til þess að bregðast við erfiðu rekstrarumhverfi þar í landi.

Þetta kemur fram á vef Telegraph en þar segir að tvö fyrirtæki hið minnsta hafi sýnt verslunarkeðjunni áhuga, og að þau hafi í hyggju að reyna að snúa erfiðum rekstri við með því að loka nokkrum verslunum.

Bresku verslanakeðjurnar þrjár hafa verið í eigu Kaupþings frá árinu 2009, sem heldur utan um erlendar eignir gamla Kaupþings. Áður voru þær í eigu Mosaic Fashions en Baugur var stærsti hluthafinn í því félagi. Fyrrnefnt félag varð gjaldþrota í framhaldi af gjaldþroti Baugs árið 2009. Kaupþing setti verslanirnar á sölu í nóvember í fyrra.

Fimm þúsund manns starfa í verslununum, en um er að ræða eina stærstu tískuvörukeðju Bretlands. Heimildir Telegraph herma að nýir eigendur muni loka öllum verslunum á Oxford stræti í Lundúnum meðal annars vegna sífellt hækkandi leigu sem hafi gert rekstraraðilum erfitt fyrir, þrátt fyrir að um sé að ræða eina stærstu tískuvörukeðju Bretlands.

Sömuleiðis hefur verið mikill samdráttur í breskri fataverslun síðustu misseri og hafa fatakeðjurnar þrjár verið metnar á undir hundrað milljónir punda, sem samsvarar tæplega 14 milljörðum íslenskra króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×