Erlent

Vottar Jehóva gerðir útlægir frá Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá hæstarétti Rússlands í dag.
Frá hæstarétti Rússlands í dag. Vísir/AFP
Hæstiréttur Rússlands hefur samþykkt beiðni stjórnvalda þar í landi um að skilgreina Votta Jehóva sem öfgasamtök. Starfsemi trúarhreyfingarinnar þar í landi verður því bönnuð og eignir 395 safnaða verða teknar eignanámi. Vottar ætlar að áfrýja úrskurðinum.

Talsmaður trúarhreyfingarinnar sagði Tass fréttaveitunni, sem er í eigu ríkisins, að ef áfrýjunin yrði ekki þeim í hag yrði farið með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu.

„Ég trúði ekki að þetta væri mögulegt í Rússlandi nútímans, þar sem trúfrelsi er tryggt í stjórnarskrá,“ sagði talsmaðurinn í samtali við AFP.

Dómsmálaráðuneyti Rússlands segir Votta hafa dreift bæklingum sem hafi kynnt undir hatri gagnvart öðrum hópum. Samkvæmt BBC eru um 175 þúsund Vottar í Rússlandi. Iðkendur trúarinnar voru ofsóttir á tímum Sovíetríkjanna.

Í einum bæklingi Votta sem dreift var í Rússlandi, var vitnað í orð Leo Tolstoy sem lýsti rússnesku Rétttrúnaðarkirkjunni sem hjátrú og göldrum.

Embættismenn hafa sakað Votta um að ógna lífum, dreifa hatri og eyðileggja fjölskyldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×