Viðskipti innlent

Gjaldþrot Sjávarleðurs nam 420 milljónum króna

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sjávarleður markaðssetti vörur sínar erlendis undir vörumerkinu Atlantic Leather.
Sjávarleður markaðssetti vörur sínar erlendis undir vörumerkinu Atlantic Leather.

Lýstar kröfur í þrotabú Sjávarleðurs á Sauðárkróki námu 419,7 milljónum króna en einungis 59 milljónir fengust greiddar. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag.

Þar segir að Sjávarleður hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 30. júní 2016 og að skiptum hafi lokið 28. mars síðastliðinn. Eignir félagsins voru fasteignin Borgarmýri 5 á Sauðárkróki og veðsettur lager og vörubirgðir. Fasteigninni var ráðstafað til veðhafa á veðhafafundi auk þess sem samþykkt var tilboð í lager og birgðir á veðhafafundi þannig að af eignum félagsins greiddust einungis veðkröfur. Lýstar veðkröfur námu 296 milljónum króna og fengust eins og áður segir 59 milljónir upp í þær.   

Sjávarleður framleiddi ásamt dótturfyrirtæki sínu, Loðskinni, leður úr fiskroði og loðgærur í sútunarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Gunnsteinn Björnsson, fyrrverandi framkvæmdastóri félaganna tveggja, sagði í samtali við Fréttablaðið í desember 2014, að innflutningsbann Rússa á vörur frá Íslandi ástæðuna fyrir því hversu illa hafði gengið að selja sauðargærur úr landi. Á þeim tíma áætlaði hann að heildarverðmæti óseldra gæra í landinu næmi meira en 200 milljónum króna. Gærurnar fóru í framleiðslu á mokkaskinni eða leðri og sagði Gunnsteinn í samtali við Morgunblaðið í júlí í fyrra að ástæður gjaldþrotsins mætti rekja til hruns í sölu á skinnunum.Fleiri fréttir

Sjá meira