Erlent

Neitar að biðjast afsökunar: „Það hefur enginn vott af húmor lengur“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, neitar að biðjast afsökunar á ummælum sínum um Hawaii eyju, sem hann lét falla í liðinni viku. Guardian greinir frá. 

Ummælin lét Sessions falla í síðustu viku, þegar hann gagnrýndi ákvörðun dómara á Hawaii eyjum um að setja lögbann á ferðabann Donald Trump, forseta landsins, á íbúa frá múslímaríkjum. Hann sagði að það væri magnað að „dómari á einhverri eyju í Kyrrahafi“ gæti haft áhrif á tilskipun forsetans.

Ummælin vöktu mikla reiði, enda um að ræða eitt af ríkjum Bandaríkjanna og bentu einhverjir Sessions á, að fjöldi Bandaríkjamanna hefði fallið, til þess að verja „þessa einhverja eyju í Kyrrahafinu,“ í síðari heimsstyrjöldinni.

Það hefur enginn vott af húmor lengur. Ég var ekki að gagnrýna dómarann eða eyjuna. Þetta er fallegur eyjaklasi. En punkturinn stendur samt sem áður, gagnrýni á það fyrirkomulag, að óbreyttur dómari geti stöðvað tilskipun forseta, sem miðar að því að gera Bandaríkin öruggari.

Tilskipun Trump var önnur tilraun hans til þess að koma í veg fyrir ferðalög fólks frá sex múslímalöndum til Bandaríkjanna. Umræddur dómari, Derrick Kahala Watson, dæmdi gegn banninu, á þeim forsendum að bannið bryti gegn trúfrelsi sem bandaríska stjórnarskráin byggir á.

Dómsmálaráðherrann segir að yfirvöld muni róa að því öllum árum að koma tilskipun forsetans í gegn. Hann segir lögbann dómarans ekki geta staðið lengi.

Ég held að það hafi verið mistök. Við munum berjast fyrir þessu í dómstólunum og sigra að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×