Erlent

Bandaríkin biðla til Norður-Kóreu um að róa ástandið á Kóreuskaga

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Norður-Kóreumenn hafa ekki setið á miklum friðarstóli að undanförnu.
Norður-Kóreumenn hafa ekki setið á miklum friðarstóli að undanförnu. Vísir/EPA
Í kjölfar aukinnar spennu á Kóreuskaga, hefur varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, kallað eftir því að Norður-Kórea grípi til aðgerða, til þess að lægja öldurnar og minnka spennuna á skaganum. Þeir kalla eftir breyttri orðræðu frá norður-kóreskum yfirvöldum. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pentagon, sem barst fjölmiðlum í dag:

„Við köllum eftir því að Norður-Kórea hætti að beita hótunum og árasargjörnum aðgerðum og virði þess í stað alþjóðlegar skuldbindingar sínar og komi aftur að samningaborðinu.“

Þar koma jafnframt fram upplýsingar sem höfðu ekki dulist neinum, það er að segja, sú skoðun Bandaríkjanna að eldflaugatilraunir Norður-Koreumanna brjóti gegn alþjóðlegum sáttmálum og séu því ólöglegar.

Tilkynningin kemur i kjölfar hótanna ráðamanna í Norður-Kóreu um að sökkva flugmóðurskipinu USS Carl Winston, sem Bandaríkjamenn hafa sent til æfinga í vesturhluta Kyrrahafsins, nálægt Kóreuskaga.

Yfirvöld segjast geta ráðist á skipið með skömmum fyrirvara og nýtt til þess eldflaugar sínar.

Sjá einnig: Hóta að sökkva flugmóðurskipi Bandaríkjanna

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, gaf einnig frá sér tilkynningu vegna hótanna Norður-Kóreumanna, þar sem kemur fram að ráðuneytið haldi áfram að róa að því öllum árum, „að leysa Norður-Kóreuvandann.“

„Við sækjumst ekki eftir vopnuðum átökum, né heldur viljum við hóta Norður-Kóreu. Við verðum hins vegar að bregðast við hótunum í garð okkar og bandamanna okkar.“

„Við höldum áfram að vera opin fyrir því að ræða við Norður-Kóreumenn, en til þess verður Norður-Kórea að hætta ólöglegum aðgerðum sínum og árásargjarnri hegðun á svæðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×