Erlent

Obama snýr aftur: „Jæja hvað hefur verið í gangi á meðan ég var í burtu?“

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Barack Obama sneri í dag aftur í sviðsljósið eftir að hann lét af embætti forseta Bandaríkjanna í lok janúar.
Barack Obama sneri í dag aftur í sviðsljósið eftir að hann lét af embætti forseta Bandaríkjanna í lok janúar. Vísir/Getty
Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, kom í fyrsta sinn opinberlega fram í dag síðan hann lét af embætti í lok janúar. Hann ræddi við unga leiðtoga í Háskólanum í Chicago og sló á létta strengi og byrjaði á því að spyrja „Jæja, hvað hefur verið í gangi á meðan ég var í burtu?“ og uppskar hlátur viðstaddra.

Mikið hefur verið rætt um hvað Obama muni taka sér fyrir hendur nú þegar forsetatíð hans er lokið og sagðist hann ætla að einbeita sér að því að bæta stjórnmálamenningu Bandaríkjanna.

„Ég hef eytt miklum tíma í að hugsa hvað sé það mikilvægasta sem ég get gert næst og ég er sannfærður um að þó það séu ýmis málefni sem mér er annt um og ætla mér að vinna að, það mikilvægasta sem ég get gert er að aðstoða við að búa næstu kynslóð leiðtoga undir að taka við keflinu og að reyna að breyta heiminum,“ sagði hann meðal annars

Hann sagði að málefni eins og ójöfnuður, dómskerfið og loftslagsbreytingar séu allt málefni sem þurfi að taka á.

„Öll þessi málefni eru mikilvæg, þau eru yfirþyrmandi, en þau eru ekki óleysanleg. Það sem kemur í veg fyrir að við getum tekist á við þau eru stjórnmálin okkar og samfélagið.“

Kannski bara kattamyndbönd

Hann sagði að hagræðing sannleikans, áhrif efnamanna á stjórnmál og breytingar í fjölmiðlum hafa áhrif og leiða til þess að fólk hlusti einungis á fólk sem er því sammála og leiði til þess að fólk horfist ekki í augu við hvernig heimurinn er og hvað þurfi að gera til að bæta samfélagið. Hann sagði að fyrir 20-30 árum hafi verið sameiginlegur grunnur staðreynda.

„Internetið hefur að einhverju leyti hraðað á því að fólk er ekki að tala um sömu hlutina... Eða kannski eruð þið bar að skoða kattamyndbönd, og það er allt í lagi.“

Hann sagði að eina fólkið sem gæti leyst þessi vandamál væri ungt fólk og að hann vilji einbeita sér að því hvað geri ungt fólk afhuga starfi í stjórnmálum. Hann sló á létta strengi, gerði grín að sjálfum sér og sagðist vera gamall og gaf gestum ráð um að deila ekki of miklu á samfélagsmiðlum. 

„Ef það væru til myndir af öllu sem ég gerði í menntaskóla þá hefði ég líklega ekki orðið forseti Bandaríkjanna,“ sagði hann.

Obama nefndi Donald Trump núverandi Bandaríkjaforseta ekki á nafn á fundinum en gaf sér þó tíma til að gagnrýna stefnu núverandi ríkisstjórnar, þá sérstaklega í málefnum innflytjenda. Hann sagði að innflytjendur væru oftast fjölskyldur í leit að betra lífi fyrir börnin sín en að þeir sem vildu opnari landamæri mættu ekki falla í þá gryfju að halda að aðrir væru sjálfkrafa fordómafullir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×