Erlent

Höfðuðu mál gegn nágranna sem málaði húsið sitt röndótt

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Húsið er engu líkt.
Húsið er engu líkt. visir/skjáskot
Nágrannar konu, sem málaði hús sitt röndótt, verða að sætta sig við að hafa líflegt útlit hússins fyrir augunum í náinni framtíð. Nágrannarnir höfðuðu mál gegn konunni vegna sjónmengunar sem þeir töldu stafa frá húsinu en dómarinn taldi ekki ástæðu til þess að krefja konuna um að mála hús sitt einlitt á ný. The Guardian greinir frá

Húsið röndótta er staðsett í hinu dýra Kensington-hverfi í Lundúnum og er andvirði þess talið nema milljónum punda.

Eigandi hússins, Zipporah Lisle-Mainwaring, málaði rauðar og hvítar rendur á framhlið hússins í mars 2015, nágrönnum hennar til mikillar mæðu.

Ekki er búið í húsinu sem stendur en til stendur að gera það upp. 

Í réttarsal var aðallega deilt um hvort útlit hússins væri umhverfislýti í skilningi reglugerðar um borgarskipulag. Á lægra dómsstigi hafði niðurstaðan verið sú að húsið væri sjónmegnandi fyrir nágrannana og Lisle-Mainwaring gert að mála það upp á nýtt. Hún ákvað því að áfrýja dómnum. 

Dómarinn sem dæmdi í málinu taldi að svo væri ekki, hús sem féllu undir ákvæði um umhverfislýti þyrftu að vera niðurnídd eða í slæmu standi. Ákvæðið tæki ekki til ólíkra hugmynda manna um fagurfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×