Erlent

Segir lækna hafa logið um þyngdartap systur hennar

Birgir Olgeirsson skrifar
Eman fyrir aðgerðina.
Eman fyrir aðgerðina. Vísir/AFP
Systir Eman Abd El Aty, egypskrar konu sem er sögð hafa verið sú þyngsta í heimi, hefur sakað lækna um að ljúga til um þyngdartap Eman eftir að hafa gengist undir hjáveituaðgerð í Indlandi.

Greint er frá ásökunum systurinnar á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC.

Læknar á Saifee-sjúkrahúsinu í Mumbaí framkvæmdu aðgerðina á Eman Abd El Aty en í síðustu viku sögðu þeir hana hafa misst 250 kíló í kjölfar hennar, en fyrir var hún 500 kíló að þyngd.

Systir hennar vill meina að þessar fullyrðingar læknanna séu ósannar og bætti við að systir hennar væri við afar slæma heilsu og telur líkur á að hún hafi hlotið heilablóðfall.

Forsvarsmenn Saifee-sjúkrahússins hafa brugðist ókvæða við þessum ásökunum.

Systirin heitir Shaimaa Selim sem birti stutt myndband á samfélagsmiðli á mánudag þar sem hún hélt því fram að systir hennar gæti ekki talað eða hreyft sig og að hún hefði ekki lést jafn mikið og læknarnir hefðu haldið fram.

„Hann vildi ekki vigta hana fyrir aðgerðina né eftir hana. Ef hann hefur einhverjar sannanir fyrir þessu ætti hann að sýna myndband af því þegar hún var vigtuð fyrir og eftir aðgerðina,“ sagði Shaimaa við BBC um Dr. Muffazal Lakdawala sem fór fyrir aðgerðinni á systur hennar.

Shaimaa sagði systur sína þurfa að notast við súrefnisgrímu og að hún fengi mat í gegnum slöngu.

BBC ræddi við talskonu sjúkrahússins sem sagði Eman hafa verið vigtaða síðastliðinn mánudag og að þá hafi hún verið 172 kíló að þyngd.

Eman varð fyrir heilablóðfalli ellefu ára gömul. Sökum offitu hafði hún ekki yfirgefið heimili sitt í Alexandríu í Egyptalandi síðastliðin 25 ár.

Henni var flogið í sérútbúinni flugvél til Mumbaí í janúar síðastliðnum þar sem hún gekkst undir hjáveituaðgerð á maga.

Læknarnir segja hana nú passa í hjólastól og að hún geti setið ein og óstudd lengur en áður.

Systir hennar er sögð ósátt við forsvarsmenn sjúkrahússins því þeir telja Eman vera að nálgast þá stund að geta farið aftur heim til Alexandríu. Það hugnast systur hennar ekki sem segist ekki geta séð um Eman og hefur grátbeðið sjúkrahúsið um að halda henni lengur og hjálpa henni að ná fullri heilsu.


Tengdar fréttir

Þyngsta kona heims léttist um 250 kíló

Egypska konan Eman Ahmed Abd El Aty, sem sögð er hafa verið þyngsta kona í heimi, hefur lést um 250 kíló á þremur mánuðum frá því að hún fór í meðferð vegna þyngdarinnar á Indlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×