Erlent

Birta myndir frá stærstu heræfingu í sögu Norður-Kóreu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sjónarspilið var mikið
Sjónarspilið var mikið KCNA
Fyrstu myndirnar frá stærstu heræfingu í sögu Norður-Kóreu, sem blásið var til í gær í tilefni 85 ára afmælis hersins, hafa litið dagsins ljós.

Á myndunum má sjá langar raðir af hverskyns hertólum, svo sem skriðdrekum og fallbyssum, meðfram strandlengju skammt frá hafnarborginni Wosnan í austurhluta landsins.

Talið er að á bilinu 300 til 400 farartæki hafi verið viðruð á æfingunni, undir vökulu augu einræðisherrans Kim Jong-Un sem fylgdist með herlegheitunum úr glæsikerru sinni - að sögn norður-kóreska ríkisfjölmiðilsins.

Einræðisherrann fylgdist grannt með gangi mála.KCNA
Miðillinn sparaði ekki stóru orðin í lýsingum sínum af æfingunni og sagði hana til þess fallna að „slá botn í ráðabrugg Bandaríkjanna og kjarnorkukúganir þeirra.“

Sjá einnig: Trump býður öllum öldungadeildarþingmönnum til fundar vegna Norður-Kóreu

„Árásargeta hersins er takmarkalaus en hann er búinn margvíslegum háþróuðum vopnum, svo sem hárnákvæmum kjarnavopnum og kafbátaloftskeytum,“ sagði í forsíðufrétt málgagnsins Rodong Sinmun á þriðjudag.

KCNA
Talið er að stór hluti hersins hafi sérstaklega verið þjálfaður til þess að ráðast á og verjast innrás frá Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu.

„Æfing gærdagsins markar lokahnykkinn í vetrarlöngum heræfingu norður-kóreska hersins,“ ályktaði prófessorinn Kim Dong-yub í samtali við hina suður-kóresku fréttastofu Yonhap.

Bandaríski herinn hefur sjálfur verið við æfingar við Kóreuskaga að undanförnu. Greint var frá því að kjarnorkukafbáturinn USS Michigan hafi komið að ströndum Suður-Kóreu í gær og bættist þar í hóp flotadeildarinnar sem leidd er af flugmóðurskipinu Carl Vinson.

KCNA
KCNA
KCNA
KCNA
KCNA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×