Erlent

Borgarstjóri Malmö svarar danska dómsmálaráðherranum fullum hálsi

Atli Ísleifsson skrifar
Eyrarsundsbrúin tengir Kaupmannahöfn og Malmö.
Eyrarsundsbrúin tengir Kaupmannahöfn og Malmö. Vísir/AFP
Danskir stjórnmálamenn hafa að undanförnu lýst yfir áhyggjum af því að aukin glæpatíðni í Malmö komi til með að „flæða“ yfir Eyrarsund og til Danmerkur. Lögregla í Danmörku hefur þó sagt litlar líkur á slíkri þróun.

„Danska ríkisstjórnin á víst að kynna fyrir Folketinget hvernig eigi að koma í veg fyrir að glæpir í Svíþjóð „flæði yfir“ til Danmerkur. Þetta skal gert þrátt fyrir að danska lögreglan segir ekki vera neina hættu á því,“ segir Katrin Stjernfeldt Jammeh, borgarstjóri í Malmö, á Facebook.

Danskir stjórnmálamenn hafa sumir sagst vera uggandi vegna þess ofbeldis sem fylgir deilum gengja í Malmö, hinum megin Eyrarsunds.

Danski dómsmálaráðherrann Søren Pape Poulsen segir þróunina í Malmö síðustu misserin valda áhyggjum. „Ég skil að menn séu uggandi að þróunin nái til okkar lands. Danska lögreglan er mjög meðvituð um þróunina, en tengir ekki glæpi í Malmö við glæpi í Kaupmannahöfn,“ sagði Pape Poulsen á þinginu í dag.

Í frétt Expressen kemur fram að danska lögreglan líti á ofbeldið í Malmö sem staðbundið.

Stjernfeldt Jammeh skrifar enn fremur á Facebook að sænsk yfirvöld viti að smygl á vopnum, eiturlyfjum og áfengi fari um Danmörku og til Skánar og annars staðar í Svíþjóð. „Lausnin er ekki meira karp! Lausnin er aukin samvinna og skipti á upplýsingum, milli stjórnvalda og yfirvalda. Borgirnar og landsvæðin vísa gjarna veginn,“ segir borgarstjórinn í Malmö.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×