Erlent

Opinberum starfsmönnum meinað að klæðast búrkum í Þýskalandi

Atli Ísleifsson skrifar
Starfsstéttir sem lögin ná til eru meðal annars starfsmenn á kjörstöðum, hermenn og starfsmenn dómskerfisins.
Starfsstéttir sem lögin ná til eru meðal annars starfsmenn á kjörstöðum, hermenn og starfsmenn dómskerfisins. Vísir/AFP
Þýska þingið samþykkti í gærkvöldi lagafrumvarp sem felur í sér að bannað verði að klæðast fatnaði sem hylur andlit við ákveðnar aðstæður.

Frankfurter Allgemeine Zeitung greinir frá þessu. Lögin munu meina ákveðnum opinberum starfsmönnum að klæðast búrkum, niqab og sambærilegum klæðnaði sem hylur andlit. Starfsstéttir sem lögin ná til eru meðal annars starfsmenn á kjörstöðum, hermenn og starfsmenn dómskerfisins.

„Aðlögun þýðir einnig að við tölum skýrt um gildi okkar og sýnum hvar mörk umburðarlyndis okkar gagnvart öðrum menningum liggja,“ segir innanríkisráðherrann Thomas de Maizière.

Í framtíðinni á einnig að vera hægt að skipa fólki að sýna opinberum starfsmönnum andlit sitt þar sem þarf að bera saman andlit viðkomandi við mynd í vegabréfi eða öðrum skilríkjum, til að mynda í tengslum við kosningar.

Þingmenn stjórnarflokkanna Kristilegra demókrata og systurflokks hans, CSU, og Jafnaðarmannaflokksins greiddu allir atkvæði með tillögunni. Þingmenn Græningja og Vinstriflokksins lögðust gegn frumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×