Viðskipti innlent

Íslenska auglýsingastofan vinnur alþjóðlega samkeppni

Sæunn Gísladóttir skrifar
Íslandsstofa efndi nýverið til alþjóðlegrar samkeppni um áframhaldandi vinnu vegna verkefnisins Ísland allt árið / Inspired by Iceland.
Íslandsstofa efndi nýverið til alþjóðlegrar samkeppni um áframhaldandi vinnu vegna verkefnisins Ísland allt árið / Inspired by Iceland. Mynd/Íslandsstofa
Íslenska auglýsingastofan vann á dögunum alþjóðlega samkeppni um verkefnið Inspired by Iceland. Fram kemur í tilkynningu að Íslandsstofa efndi nýverið til alþjóðlegrar samkeppni um áframhaldandi vinnu vegna verkefnisins Ísland allt árið / Inspired by Iceland sem fól í sér hugmyndir og stefnumörkun vegna kynningar, almannatengsla, hönnunar og framleiðslu markaðsefnis undir merkjum Inspired by Iceland.

Íslandsstofa óskaði eftir tillögum að áframhaldandi markaðsstarfi í janúar 2017 og var samkeppnin opin stofum um heim allan í samræmi við útboðsreglur Ríkiskaupa. Þrír aðilar buðu í verkið, þeirra á meðal alþjóðlegu stofurnar MC Group og TBWA London í samstarfi við Pipar Media í Reykjavík. Var niðurstaða dómnefndar afgerandi; Íslensku auglýsingastofunni og The Brooklyn Brothers í vil, sem munu því halda merkjum Íslands á lofti næstu þrjú árin.

Íslenska auglýsingastofan og The Brooklyn Brothers í London hafa unnið að verkefninu Inspired by Iceland í samstarfi við Íslandsstofu síðan árið 2010. Herferðirnar hafa unnið til fjölmargra verðlauna, bæði hér heima og erlendis og er Inspired by Iceland nú orðin verðlaunaðasta ferðaþjónustuherferðin í heiminum. Nú síðast vann Ask Guðmundur fern gullverðlaun á Euro Effie hátíðinni auk Grand prix verðlauna og Iceland Academy hlaut íslensku auglýsingaverðlaunin, Lúðurinn, í flokkunum Herferð ársins og Stafrænar auglýsingar. Auk þess hefur Inspired by Iceland hlotnast sá heiður að vinna tvenn gullverðlaun á Cannes Lion hátíðinni, svo eitthvað sé nefnt.  Í heildina hefur herferðin því unnið yfir 20 gull og Grand Prix verðlaun á síðustu 5 árum, þá ekki talin önnur verðlaun sem herferðin hefur unnið.

Ísland – allt árið er samstarfsverkefni stjórnvalda og fyrirtækja í ferðaþjónustu um samþætta markaðssetningu fyrir Ísland sem áfangastað undir merkjum Inspired by Iceland. Íslandsstofa annast framkvæmd verkefnisins.  Markmið Inspired by Iceland landkynningarátaksins hefur verið að auka vitund um Ísland sem heilsársáfangastaðar. Eins er markmið að draga úr árstíðartengdum sveiflum í greininni, hvetja ferðamenn til þess að ferðast víðar um landið, og ýta um leið undir ábyrga hegðun þeirra ferðamanna sem til landsins koma. Fyrri útfærslur Inspired by Iceland, Honorary Islander, Iceland by another name og Share the Secret, hafa því átt stóran þátt í því að gera Ísland að aðlaðandi áfangastað jafnt um sumar sem vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×