Enski boltinn

Eldræða Carraghers: Özil og Sánchez spila eins og þeir vilji komast í burtu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carragher hakkaði Arsenal-liðið í sig í Monday Night Football í gærkvöldi.
Carragher hakkaði Arsenal-liðið í sig í Monday Night Football í gærkvöldi. vísir/getty
Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, fór engum silkihönskum um Arsenal eftir 3-0 tap liðsins fyrir Crystal Palace í gær.

Carragher sagði að væri eins og leikmennirnir vildu losna við Arsene Wenger, sagði að þeir væru huglausir og fór afar hörðum orðum um Mesut Özil og Alexis Sánchez.

„Það er eins og leikmenn Arsenal hafi kastað hvíta handklæðinu inn. Þeir hafa núna fengið á sig þrjú mörk í fjórum útileikjum í röð. Það er alltaf talað um Arsene Wenger og ég held að meirihluti stuðningsmanna Arsenal vilji sjá breytingar. Og það virðist vera að leikmennirnir vilji breytingar,“ sagði Carragher í þættinum Monday Night Football á Sky Sports.

„Ég hef alltaf verið hrifinn af því hvernig hann ber sig og hvernig hann talar fyrir og eftir leiki. En ég er á því, og hef verið í nokkurn tíma, að það sé kominn tími á breytingar.“

Carragher segir að sigurhugsunin sé ekki til staðar hjá Arsenal og félagið virðist sætta sig við að vera í fjórum efstu sætum ensku úrvalsdeildarinnar.

„Þetta samþykki á að vera bara í topp fjórum gegnsýrir allt félagið. Þegar hann [Wenger] kom inn á sínum tíma vann liðið titla og barðist við Manchester United. Það þótti martröð ef liðið endaði í 2. sæti. Núna sætta þeir sig við að vera í 4. sæti,“ sagði Carragher. „Gleymdu topp fjórum. Þetta snýst ekkert um það. Reyndu að vinna titla, ekki enda í 4. sæti. Þetta hefur haft áhrif á allt félagið.“

Mikil umræða hefur verið um framtíð Özils og Sánchez hjá Arsenal að undanförnu. Carragher lét þá heyra það og sagði að það væri ekki eins og þeir væru að spila fyrir nýja samninga.

„Þeir hafa verið neyðarlega slakir síðan umræðan um samningana byrjaði. Við gagnrýnum Özil alltaf en Sánchez hefur verið ömurlegur að undanförnu. Það er ekki eins og þeir séu að spila fyrir nýja samninga. Það lítur út fyrir að þeir séu að spila til að komast í burtu,“ sagði Carragher. „Þeir voru keyptir til að hjálpa Arsenal að vinna titla en þeir hafa ekki verið nálægt því nógu góðir.“

Arsenal situr í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 54 stig, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti.


Tengdar fréttir

Wenger: Þetta er áhyggjuefni

Arsene Wenger er búinn að stýra Arsenal í rúmlega 1.100 leikjum en hefur aldrei lent í öðru eins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×