Viðskipti innlent

Fjármál Hafnarfjarðar ekki lengur undir eftirliti

Sæunn Gísladóttir skrifar
Rekstrartekjur Hafnarfjarðarbæjar á árinu 2016 námu 23 milljörðum króna.
Rekstrartekjur Hafnarfjarðarbæjar á árinu 2016 námu 23 milljörðum króna. Vísir/GVA
Sögulegur viðsnúningur hefur orðið í rekstri Hafnarfjarðarbæjar, úr rekstrarhalla í rekstrarafgang. Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs, segist stolt af því að fjármálin séu komin á þennan stað. Hafnarfjarðarbær mun nú komast undan eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga eftir fimm ár undir eftirliti.

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar 2016 var lagður fram í gær. Í honum kemur fram að skuldaviðmið sé komið undir 150 prósent, skuldahlutfall Hafnarfjarðarbæjar var 169,6 prósent í árslok 2016 samanborið við 194 prósent í árslok 2015 og hefur ekki verið lægra í aldarfjórðung eða frá árinu 1992.

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar. Fréttablaðið/Daníel
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 23 milljörðum króna. Rekstarniðurstaða sveitarfélagsins fyrir óreglulega liði var jákvæð um 754 milljónir, sem er ríflega tvöfalt meira en 361 milljón króna sem áætlað hafði verið. Á árinu 2016 voru greiddar afborganir, alls 2,1 milljarður króna.

„Viðsnúninginn má fyrst og fremst rekja til þeirra aðgerða sem farið var í í upphafi þessa kjörtímabils. Farið var í viðamikla rekstrarúttekt á öllum stofnunum sveitarfélagsins og leitað leiða til að ná fram umbótum og betri nýtingu fjármuna, úr varð að farið var í alls kyns aðgerðir," segir Rósa Guðbjartsdóttir. Hún nefnir sem dæmi að verkefni voru endurskilgreind og boðin var út alls kyns þjónusta og vörukaup sveitarfélagsins.

„Það tekur tíma fyrir allt kerfið að aðlagast þessum breytingum og nú er það að skila þessum árangri. Það að rekstrarkostnaðurinn sjálfur sé ekki að hækka milli ára skiptir gríðarlega miklu máli og er stór þáttur í þessu. Við erum stolt af því að vera komin á þennan stað. Þessi tímamót felast ekki síst í því að við erum búin að vera í fimm ár undir þungu eftirliti eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Við komumst undan þessu eftirliti sem er mjög stór áfangi. Það var niðurlægjandi að vera í hópi þeirra sveitarfélaga sem lentu undir því eftirliti. Það skiptir miklu máli að vera orðin sjálfráða,“ segir Rósa.

„Þetta eru vissulega jákvæð tíðindi en ekkert sem kemur á óvart,“ segir Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði. „Tekjur sveitarfélaga eru almennt að aukast mjög mikið í samræmi við efnahagsþróunina á Íslandi. Þetta eru kannski umskipti sem við erum að sjá hjá sveitarstjórnarstiginu í heild.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×