Innlent

Tímabært að krabbameinsáætlun sé sett á fót

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Valgerður Sigurðardóttir, formaður Krabbameinsfélagsins.
Valgerður Sigurðardóttir, formaður Krabbameinsfélagsins.
Krabbameinsáætlun verður kynnt eftir páska en vinnu ráðherranefndar er löngu lokið og hefur stjórnsýslan verið gagnrýnd fyrir seinagang. Formaður Krabbameinsfélagsins segir mikilvægt að á Íslandi sé til heildstæð krabbameinsáætlun og fagnar því að ráðherra ætli að bregðast við.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að krabbameinsáætlun fyrir Ísland verði loks kynnt eftir páska. Vinnu ráðherranefndar um málið sé þó löngu lokið og er stjórnsýslan gagnrýnd fyrir seinagang. Krabbameinsfélög hafi spurt heilbrigðisyfirvöld um stöðu málsins en ekki verið svarað.

Valgerður Sigurðardóttir, formaður Krabbameinsfélagsins, segir löngu tímabært að krabbameinsáætlun verði sett á fót. „Við fögnum því náttúrulega að þessi skýrsla hafi verið tekin upp úr skúffunni og að ráðherra hafi ákveðið að halda áfram. Það var mjög mikil vinna lögð í þessa skýrslu,“ segir Valgerður.

Ísland er eina Norðurlandaþjóðin sem hefur ekki enn sett sér heildstæða krabbameinsáætlun.  „Ég held að það hafi nú verið bara seint árið 1998 sem að fyrstu áætlanirnar komu á Norðurlöndunum. Þannig að við erum langt á eftir“

Í dag greinast árlega yfir 1500 manns með krabbamein á Íslandi og segir Valgerður gríðarlega mikilvægt að Ísland sé með heildstæða krabbameinsáætlun. „Það er einn af hverjum þremur sem einhverntíman á ævinni greinist með þennan sjúkdóm. Það er mjög mikilvægt fyrir samfélagið að þessi meðferð og greining gangi vel fyrir sig svo fólk komist aftur út í samfélagið,“ segir Valgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×