Erlent

Le Pen gagnrýnir Trump fyrir að skipta um skoðun á NATO

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Marine Le Pen, leiðtogi og forsetaframbjóðandi Frönsku þjóðfylkingarinnar.
Marine Le Pen, leiðtogi og forsetaframbjóðandi Frönsku þjóðfylkingarinnar. Vísir/EPA
Marine Le Pen, leiðtogi og forsetaframbjóðandi Frönsku þjóðfylkingarinnar, gagnrýnir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, harðlega fyrir að skipta um skoðun á mikilvægi varnarbandalagsins NATO, í nýlegu viðtali við CNN.

Ummæli Le Pen koma í kjölfar þess að Trump lét hafa eftir sér, á blaðamannafundi með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, að varnarbandalagið væri svo sannarlega ekki úrelt lengur, þó hann hafi áður sagt það, þá væri staðan önnur í dag.

Le Pen lagði áherslu í viðtalinu á það að hún væri ólík Trump, að því leytinu til, að hún muni ekki skipta um skoðun ef hún kemst til valda. Hún ætli sér að setja Frakkland í fyrsta sæti, sama hvað.

Ég stend við það sem ég segi. Hann sagðist ætla að verða forseti Bandaríkjanna, en ekki alheimslögregla. Hann virðist hafa skipt um skoðun.

Trump og Le Pen voru álitnir hugmyndafræðilegir bandamenn á meðan kosningabaráttu Trump stóð, en hann, líkt og Le Pen hefur talað fyrir hertari innflytjendalöggjöf og mikilvægi þess að stemma stigu við hnattvæðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×