Erlent

Segja þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá vera ógilda

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan heilsar fólki eftir að hafa beðið við Eyup Sultan moskuna í Istanbul í gær. Hann fær aukin völd samkvæmt niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar um helgina.
Recep Tayyip Erdogan heilsar fólki eftir að hafa beðið við Eyup Sultan moskuna í Istanbul í gær. Hann fær aukin völd samkvæmt niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar um helgina. Vísir/EPA
Brögðum var beitt í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar í Tyrklandi um helgina. Andstæðingum voru skorður settar og stjórnvöld misnotuðu þá aðstöðu sem þau höfðu innan stjórnsýslunnar. Þetta segja eftirlitsaðilar með kosningunum. Tillaga Erdogans forseta um aukin völd forsetans voru samþykktar með 51,4 prósent atkvæða.

Breytingarnar fela í raun í sér afnám þingræðis í Tyrklandi. Fjárlög Tyrklands verða á forræði forsetans, hann mun geta skipað og veitt ráðherrum lausn frá embætti og mun geta tilnefnt saksóknara og dómara við tyrkneska dómstóla.

Formaður yfirkjörstjórnar í landinu, Sadi Guven, segir aftur á móti að niðurstaða kosningarinnar sé lögmæt og utanríkisráðuneyti Tyrklands telur að athugasemdir eftirlitsaðila séu ekki settar fram af hlutleysi. Erdogan forseti segir að málstaður hans hafi unnið sigur þrátt fyrir árásir Krossfara úr vestri. „Við göngum sterkari til  kosninganna 2019,“ segir hann. Erdogan bætti því þó við að það væri mikið verk fyrir höndum. „Við erum öll meðvituð um þetta. Af því að við vorum í baráttu gegn öllum. „Krossfararnir úr vestri og þjónar þeirra réðust á okkur. En við gáfumst ekki upp. Við stóðum í fæturna sem þjóð,“ sagði Erdogan.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Þjóðarflokkurinn (CHP), hefur krafist endurtalningar á 60 prósentum greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Varaformaður flokksins segir að hundsa eigi niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar i heild sinni.

Þegar niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar lágu fyrir sagði Erdogan að Tyrkir gætu núna haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort taka ætti upp dauðarefsingu á nýjan leik. Sú ákvörðun myndi binda enda á aðildarviðræður Tyrkja við Evrópusambandið.

Ljóst er að tyrkneska þjóðin er algjörlega klofin í afstöðu sinni til breytinganna. Meirihluti Tyrkja í stórborgum landsins, Istanbul, Ankara og Izmir höfnuðu tillögum Erdogans. Helstu stuðningsmenn breytinganna eru aftur á móti íbúar héraða í miðhluta Tyrklands og íbúar við Svartahafið auk Tyrkja sem búa annarsstaðar í Evrópu. Eftir að niðurstöður voru kunngjörðar flykktust stuðningsmenn breytinganna út á götur með fána og flautur og létu í sér heyra. Andstæðingar breytinganna létu líka heyra í sér. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Segja kosninguna vera lögmæta

Sadi Guven, yfirmaður kjörnefndar í Tyrklandi, sem hafði umsjón með þjóðaratkvæðagreiðslunni þar í landi í gær, segir að niðurstaða kosningarinnar sé lögmæt.

„Sorgardagur“ í sögu Tyrklands

Tyrkir kusu um víðtækar breytingar á stjórnarskrá landsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. Nái breytingarnar fram að ganga verður lýðræði í reynd afnumið í núverandi mynd í Tyrklandi og tekið verður upp forsetaræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×