Erlent

Mikill meirihluti vill sjónvarpskappræður

Anton Egilsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ætlar ekki að taka þátt í neinum sjónvarpskappræðum.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, ætlar ekki að taka þátt í neinum sjónvarpskappræðum. Vísir/getty
Ný skoðanakönnun fréttaveitunnar Sky bendir til þess að mikill meirihluti Breta vilja að fram fari sjónvarpskappræður milli forystumanna allra flokka fyrir komandi þingkosningar. 

Alls 64 prósent þeirra sem tóku þátt í könnunnni töldu nauðsynlegt að slíkar kappræður færu fram. Þá svöruðu 31 prósent þeirra að ekki væri þörf á sjónvarpkappræðum og 5 prósent voru hlutlausir.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og formaður breska Íhaldsflokksins, staðfesti í viðtali í morgun að hún muni ekki taka þátt í neinum sjónvarpskappræðum fyrir þingkosningarnar sem fram fara í júní.

„Við munum ekki taka þátt í sjónvarpskappræðum. Ég trúi á kosningabaráttu þar sem stjórnmálamennirnir fara út og hitta kjósendur. Það er það sem ég hef alltaf trúað á, það er það sem ég trúi enn á og ég geri það enn,” sagði May.

Breska þingið samþykkti í dag tillögu May um að flýta þingkosningum. Seinast var kosið til þings í Bretlandi árið 2015 og ætti því ekki að halda kosningar fyrr en árið 2020 en með samþykkt þingsins nú hefur þeim verið flýtt um þrjú ár.

Sjá: Samþykktu að flýta kosningum

Ekki eru allir á eitt sáttir með ákvörðun May en á meðal þeirra er Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins.

„Það má ekki leyfa henni að hlaupa burtu frá skyldu sinni við lýðræðið. Breska þjóðin á skilið að fá að heyra röksemdir fyrir máli hennar,” sagði Corbyn.


Tengdar fréttir

Breska þingið samþykkti að flýta kosningum

Þingmenn neðri deildar breska þingsins samþykktu nú rétt í þessu tillögu Theresu May, forsætisráðherra, um að flýta þingkosningum og halda þær þann 8. júní næstkomandi.

May staðfestir að hún muni ekki taka þátt í sjónvarpskappræðum

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, staðfesti í viðtali í morgun að hún muni ekki taka þátt í sjónvarpskappræðum fyrir komandi þingkosningar í landinu en fastlega er búist við því að breska þingið muni í dag samþykkja tillögu May um að flýta kosningum og verða þær þá haldnar þann 8. júní næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×