Skoðun

„Nýja barnið“– neysla eða forvarnir

Gunnar Rafn Jónsson skrifar
Rannsóknarspurning mín er þessi: Hvort er betra að byrgja brunninn eða bjarga, þegar í óefni er komið? Ég bið þig, lesandi góður,að leggja tvær næstu línur á minnið:

„GRUNNUR að geðheilsu fullorðins manns er lagður í móðurkviði.“

„Nýja barnið - aukin fjölskylduvernd og bætt samskipti”

Sorglega staðreyndin: „Börn sem neyta fíkniefna hér á landi taka sífellt sterkari efni og meira af þeim en áður. Sérfræðingur segir ákaflega auðvelt að nálgast efnin og að mikil hætta sé á ótímabærum dauðsföllum barna... aðgengið er gríðarlegt og markaðssetningin í þessum tilteknu hópum er mjög mikil“ segir Funi Sigurðsson, forstöðumaður Stuðla í sjónvarpsviðtali (1), en segir jafnframt fíkniefnaneyslu barna og unglinga hafa dregist saman undanfarna tvo áratugi.

Gleðitíðindin eru þau, að einungis um 8–10% af íslenskum 10. bekkingum hefur prófað kannabisefni, en það talsvert lægra en Evrópumeðaltalið, en það liggur um 16%. Helmingur fólks milli tvítugs og þrítugs, en þriðjungur Íslendinga á fullorðinsaldri hefur prófað kannabisefni samkvæmt rannsóknum, sem Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands, hefur gert í samstarfi við Félagsvísindastofnun (2). Þannig virðist neyslan bundin við „djammkynslóðina“, sem svo láti af notkun með hækkandi aldri og aukinni ábyrgð.

Svo virðist sem þeir, sem byrji 12-14 ára í neyslu og hafa mikið af undirliggjandi persónulegum og félagslegum vandamálum, eigi við námsörðugleika og fátækt að stríða, hafi orðið fyrir einelti, kynferðislegri misnotkun, móðir fengið fæðingarþunglyndi eða foreldrar verið atvinnulausir, sé sá hópur, sem oftast lendi í verulegum vandræðum.

„Velferðarvaktin“ kannaði ástand þessa hóps á árunum eftir hrunið og komst að þeirri niðurstöðu, að þessi hópur ætti við enn meiri vanda að etja en fyrir hrun. Helmingur svarenda sagði börn standa verr. 25% þeirra, sem stóðu verst standa enn verr.

Birtingarmyndin er m.a. aukin fátækt, skert þjónusta og verri andleg heilsa eða hegðun. Kallað var eftir auknu aðgengi að geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu og meiri samvinnu á milli „félagsþjónustu, heilsugæslustöðva og annarra aðila sem vinnna að velferð barna.“ (3) Nú hafa stjórnvöld ákveðið byggingu og rekstur stofnunar fyrir þessi ungmenni, sem hvað harðast eru leikin af fíkniefnafjandanum.(4)

Því miður verður að viðurkennast, að stjórnvöld og leiðandi aðilar í heilbrigðismálum hafa enn ekki gert sér nægilega grein fyrir mikilvægi alvöru forvarna heldur einblínt á reddingar, þegar allt er komið í óefni, meðhöndlað einkenni og sjúkdóma. (5)

Augljósasta dæmið er hlutur forvarna í heildarútgjöldum til heilbrigðismála á Íslandi, en hann er einungis undir 5% þó heilsugæsluhlutinn sé meðreiknaður.

Markmið mitt með ritun greinarinnar er að benda á nokkra þætti, sem gætu í nútíð og framtíð bjargað mörgum ungmennum og um leið verið margfalt ódýrari lausn fyrir samfélagið. Þar sem ég legg höfuðáherslu á forvarnir og þátt heilsugæslustöðva, vil ég byrja á því að nefna stórmerkilegt verkefni, „Nýja barnið“.(6)

Árið 1974 náðist „samstaða milli þings og þjóðar, er lagður var grunnur að þverfaglegu samstarfi heilbrigðisstarfsfólks í heilsugæslu, sem síðar var nefnt teymisvinna“. Átta árum áður hafði þó vísir að fyrstu heilsugæslustöð landsins sprottið á Húsavík. Í kjölfarið byggðust síðan heilsugæslustöðvar víðs vegar um landið. Starfsfólk Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri (HAK) var stórhuga og hratt af stað fimm ára teymisvinnu á árunum 1992-1997 í því skyni að efla gæði mæðra- og ungbarnaverndar.

Þessu þróunarverkefni er lýst í útgáfu Landlæknisembættisins 2000. Verkefnið hlaut titilinn “Nýja barnið - aukin fjölskylduvernd og bætt samskipti” og hlaut viðurkenningu Evrópudeildar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) 1997.

Markmiðið var að skapa heilsuvernd, sem félli sem best „ að mismunandi þörfum neytenda...Tekur það mið af því að góð tilfinningatengsl eru undirstaða góðrar heilsu. Hugað er að sálrænum og félagslegum áhættuþáttum ekki síður en líkamlegum....Voru tíð og reglubundin samskipti í mæðra- og ungbarnavernd nýtt til að greina og skilja félagslega og tilfinningalega áhættuþætti og ná samvinnu við fjölskyldurnar um úrræði, en á þessu mótunarskeiði fjölskyldunnar er oft auðveldara að ná samstarfi um úrbætur. 

Með tiltölulega einföldum aðgerðum býður þetta tímabil upp á möguleika til að fyrirbyggja tilfinningalega og félagslega erfiðleika og stuðla að heilbrigðri tengslamyndun. Fái foreldrar styrk og stuðning til að vinna úr erfiðum málum sem upp hafa komið getur það komið í veg fyrir erfiðleika á síðari stigum í uppvexti barna.“

„Vinnulag þessa verkefnis var síðan tekið upp í daglegu forvarnarstarfi stöðvarinnar sem viðbót við hefðbundna mæðra-, ungbarna-, og skólaheilsuvernd, en það felst m.a. í nánu samstarfi heimilislækna, mæðraverndar, ungbarnaverndar, fjölskylduráðgjafar og skólaheilsugæslu.

Vinnulagið byggir á þeirri hugmyndafræði, að takist foreldrum að mynda heilbrigð og sterk tilfinningatengsl við barn sitt strax eftir fæðingu sé mun auðveldara að veita því þá félagslegu örvun og öryggiskennd sem nauðsynleg er til að það fái þroskað þá samskiptahæfni, sem barninu er nauðsynlegt veganesti út í lífið. Með þessu vinnulagi mun í fyrsta sinn á Íslandi markvisst unnið að velferð barnsins og fjölskyldu þess strax frá upphafi meðgöngu með sérstöku tilliti til tilfinningatengsla.

Niðurstaða höfunda af greiningu áhættuþátta var sú að um 30-40% barnshafandi kvenna hafa þörf fyrir aukinn stuðning, áfallaúrvinnslu eða einhver meðferðarúrræði.“

Ummælin hafa ekki verið af lakara taginu:

„Drifkrafturinn í þróunarferli felst í sameiginlegri hugsjón samhliða trausti innan starfshópsins og samstöðu um forystu....Það sem við teljum að hafi borðið hvað mestan árangur í þessu þróunarstarfi er samráð og samþætting mismunandi reynslu og þekkingar ólíkra faghópa samhliða sameiginlegri fræðslu og handleiðslu.“ 

„Kröftugasta og árangursríkasta forvarnarstarf sem ég hef tekið þátt í um ævina. Máttur þverfaglegrar samvinnu ólíkra heilbrigðisstétta er mikill og það hefur sko sannarlega komið í ljós í vinnulagi HAK. Trúi ekki að þessu fyrirmyndar vinnulagi verði ekki tryggðir fjármunirnir. Hvernig getum við sem trúum á mátt „Nýja barns“- vinnulagsins þrýst á úrlausn?“ 

„Mikið er í húfi, því það eru ómælanleg verðmæti fólgin í forvörnum í frumbernsku og þverfaglegum stuðningi við foreldra. Hverjir eru málsvarar ungbarna?“

Þrátt fyrir einstaklega lofandi verkefni sem þetta virðist svo sem þessu hafi ekki verið fylgt nægilega vel eftir, eins og fram kemur í rannsóknaráætlun, sem var lokaverkefni til B.Sc. prófs í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Þar könnuðu höfundar, hvaða ástæður lægju að baki því, að konur leituðu sér ekki hjálpar við fæðingarþunglyndi og hverjar væru helstu orsakir og afleiðingar sjúkdómsins. (7)

Á sama tíma sem íslensk stjórnvöld virðast vilja leggja grunnkerfið í rúst, bárust framsýnishugmyndir Norðlendinga á HAK og sjónarmið þeirra, sem aðhyllast heildræna heilbrigðisfræði breskum heilbrigðisyfirvöldum. Fyrir rúmu ári „tilkynntu bresk stjórnvöld um áætlun sem á að gjörbreyta heilbrigðiskerfinu. Til stendur að verja einum milljarði punda í að binda enda á „aðskilnað hugar og líkama“.... og áhersla verður lögð á að börn hafi greiðan aðgang að slíkum meðferðum sem og nýbakaðar mæður. .....Andleg heilsa hefur löngum verið vanrækt innan heilbrigðiskerfa heimsins. Æ fleiri rannsóknir benda hins vegar til þess að andleg og líkamleg heilsa séu alls ekki óskyld mál. Sjúklingar í Bretlandi munu senn njóta góðs af því að þarlend stjórnvöld horfa á heilbrigðismál með opnum hug.“ Tilraunaverkefni skilaði tæplega 50% til baka af útlögðum kostnaði (8).

Það á jafnt við um vímuefnavandræði og önnur aðkallandi úrlausnarefni samfélagsins, að orsakir eru margslungnar. Því er afar mikilvægt, að allir leggist á árar, vinni saman að virkum lausnum. Börn og unglingar þurfa ást, aga, atlæti, áhuga og tíma foreldra, kennara og annarra samfélagsþegna. Við berum öll ábyrgð.

Því skora ég á leiðandi aðila innan heilsugæslu, skóla og félagsmála bæjarfélaga, að öll heilsugæsluumdæmi innleiði og noti verkefnið „Nýja barnið“.

Ofangreindir aðilar og foreldrar kynni og noti sér stafræna, gagnvirka fræðslusíðu um næringu barns og móður á meðgöngu (9).

Skólar þjálfi börn og unglinga í hinum fimm þrepum til aukins sjálfsstyrks: sjálfsskoðun, sjálfsþekkingu, sjálfsvirðingu, sjálfsábyrgð og samskiptahæfni. Lögð sé áhersla á tengingu líkama og sálar – eflingu andlegs og líkamlegs atgerfis – þjálfun í tilfinningagreind í samstarfi við íþrótta- og æskulýðssamtök. Þar sé einnig kennd heimspeki, þjálfun í gagnrýni hugsun, kærleika og samkennd, lögð áhersla á húmanisma, sannleiksleit og manngildishyggju.

Börn og unglingar séu æfð í virðingu og umburðarlyndi, kennt að þekkja sjálfa sig og umheiminn - kennsluefni: Worldview Exploration samið af Noetic Sciences. Börnin fái eitthvert form andlegrar þjálfunar svo sem eflingu núvitundar, innhverfa íhugun, hugræna atferlismeðferð, jóga, listir, tónmennt og dans.

Verkefni stjórnvalda, alþingis og embættismanna verði að tryggja framfærslulaun: enginn skal fá minna útborgað eftir skatt, en sem samsvarar framfærslukostnaði, svo að foreldrar fái tíma til þess að sinna börnum sínum í uppeldinu. Hinn möguleikinn er sá að innleiða borgaralaun, þar sem öllum skulu tryggð ákveðin mánaðarleg upphæð.

Ofangreindir aðilar tryggi ennfremur búsetu á viðráðanlegu verði fyrir alla og sjái til þess að útsvarsstuðull sveitarfélaga sé nægilegur svo að hægt sé að sinna forvörnum, menntun og aðstoða börn, ungmenni og þá, sem minna mega sín í samfélaginu.

Í bókinni “Nýja barnið - aukin fjölskylduvernd og bætt samskipti” segir í lokaorðum að til þess að efla framtíðarheilbrigði þurfi aukinn skilning, þekkingu og innsæi í mikilvægi tilfinningatengsla og fjölskyldulífs, aukna sjálfstyrkingu verðandi foreldra, aukið fjármagn og fleiri stöðugildi til heilsuverndarinnar, þjálfun og stóraukna handleiðslu fyrir fagfólk, aukið samráð hjálparaðila, símenntun og endurhæfingu fagfólks. 

Samkvæmt ofangreindum gögnum og tillögum mínum, tel ég tvímælalaust, að betra sé að byrgja brunninn, forvarnir verndi fleiri aðila, bjargi fleiri börnum og unglingum, séu heilsusamlegri og hagkvæmari en aðferðir við síðari björgun. Vitaskuld verður að sinna þeim illa farna hópi, en með ofangreindum tillögum til forvarna mun þeim skjólstæðingum fækka ört.

„Grunnur að geðheilsu fullorðins manns er lagður í móðurkviði.“ Aukum því vellíðan unga fólksins með ofangreindum aðgerðum, svo að væntanlegir foreldrar búi yfir hugarró, bjóði ófæddum einstaklingi heilbrigða fæðu móður með ljúfri Mozart-tónlist og öllum þeim kostum, sem íslenskt samfélag hefur virkilega burði að bjóða – sjálfbært, réttlátt og svakalega gott.

1. https://www.ruv.is/frett/islensk-born-i-neyslu-nota-sifellt-verri-efni

2. https://www.ruv.is/frett/fikniefnaneysla-yfirleitt-timabundid-fikt

3. https://www.velferdarraduneyti.is/media/velferdarvakt09/Velferd_barna_velferdarvaktin_sumarverkefni_2011.pdf

4. https://www.ruv.is/frett/500-mkr-i-nyja-medferdarstofnun-fyrir-born

5. https://youtu.be/xyS5lchl_sQ 

6. https://www.hsn.is/static/files/Utgefid_efni/NyjaBarnid/nyja-barnid.pdf

7. https://skemman.is/stream/get/1946/15217/35740/1/ritgerdin_8.5.pdf

8. /g/2016160229993

9. www.nmb.is



 




Skoðun

Sjá meira


×