Skoðun

Fjármálalæsi ungs fólks

Ásta S. Helgadóttir skrifar
Alþjóðleg fjármálalæsisvika stóð yfir dagana 27. mars til 2. apríl en tilgangur hennar var m.a. að stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi fjármálalæsismenntunar og viðhorfsbreytingum í fjármálum. Af þessu tilefni var haldin ráðstefna í Háskólabíói þann 29. mars sl. um fjármálalæsi ungs fólks, þar sem undirrituð hélt erindi sem bar yfirskriftina: „Er ungt fólk í skuldavanda?“

Spurningin er áhugaverð í ljósi þess að umsóknum ungs fólks hefur fjölgað hlutfallslega hjá umboðsmanni skuldara. Hjá embættinu geta einstaklingar sótt um almenna ráðgjöf, úrræði greiðsluaðlögunar og fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Sem dæmi má nefna að árið 2016 voru 25 prósent umsækjenda um greiðsluaðlögun yngri en 30 ára, miðað við árið 2012 þegar hlutfall þessa aldurshóps var eingöngu fimm prósent. Sérstaka athygli vekur að enginn umsækjanda um greiðsluaðlögun á árinu 2016, yngri en 30 ára, býr í eigin húsnæði. Þetta er í takt við þá þróun að hlutfall leigjenda sem leita til embættisins hefur hækkað mikið.

Það er umhugsunarefni hvað veldur skuldavanda ungs fólks sem leitar til embættisins. Að mati undirritaðrar eru margþættar ástæður fyrir fjárhagsvanda þessara einstaklinga. Samkvæmt greiningu á umsækjendum um greiðsluaðlögun, yngri en 30 ára, er um að ræða tekjulága einstaklinga á leigumarkaði, sem skulda neysluskuldir, oft með óhagstæðum lánaskilmálum. Við skoðun þessara mála, má í flestum tilvikum greina tekjuvanda, þ.e. tekjur duga ekki fyrir grunnframfærslu og leigukostnaði, sem leiðir til skuldsetningar.

Því er ósvarað að hve miklu leyti skortur á fjármálalæsi hefur stuðlað að skuldavanda þessara umsækjenda, enda sérstakt rannsóknarefni út af fyrir sig. Það er þó ljóst að einstaklingar sem leita til embættisins, bera oft fyrir sig vankunnáttu í fjármálum sem hafi leitt til rangrar ákvörðunartöku og verri lífsgæða. Að mati undirritaðrar þarf að efla kennslu í fjármálalæsi strax frá unga aldri þar sem aukið fjármálalæsi stuðlar að fjárhagslegri velferð, bæði einstaklinga og samfélagsins í heild sinni. Það ætti því að vera sameiginlegt kappsmál okkar allra að bæta fjármálalæsi, enda mikilvægi þess ótvírætt.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×