Erlent

Theresa May við ESB: Fullveldi Gíbraltar er ekki til umræðu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Theresa May ásamt Donald Tusk.
Theresa May ásamt Donald Tusk. Vísir/EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur tjáð Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, að Bretland muni ekki fallast á það í samningaviðræðum að gefa fullveldi Gíbraltar upp á bátinn í komandi samningaviðræðum. Guardian greinir frá.

Staða Gíbraltar hefur að undanförnu verið í eldlínunni í samskiptum Bretlands við Evrópusambandið eftir að í ljós kom í samningsdrögum sambandsins í komandi Brexit viðræðum, að Spánverjar munu hafa úrslitavald í atriðum sem varða Gíbraltar. Löndin tvö hafa deilt um Gíbraltar í aldaraðir.

Tusk er um þessar mundir í opinberri heimsókn í Bretlandi en ljóst er að leiðtogarnir tveir hafa nóg til að tala um fyrir komandi útgönguviðræður Breta við sambandið.

Samkvæmt tilkynningu frá breska forsætisráðuneytinu fór vel á með þeim Tusk og May á fundinum og var andrúmsloftið jákvætt. Sammældust þau um að vera í nánum tengslum á komandi vikum og mánuðum, á meðan útgönguferli Bretlands stendur.

Í tilkynningunni segir um Gíbraltar:

„Forsætisráðherrann gerði Tusk það einnig ljóst að í málum Gíbraltar, er afstaða Bretlands óbreytt. Bretland mun falast eftir sem bestum samning fyrir Gíbraltar við útgöngu Bretlands og það verða engar viðræður um fullveldi þeirra án samþykkis fólksins sem býr í Gíbraltar.“

Skoðanakannanir sem gerðar eru meðal fólks sem býr í Gíbraltar sýna ítrekað að mikill meirihluti fólksins vill að skaginn verði áfram hluti af Bretlandi en á sama tíma kusu 96 prósent þeirra með áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu.

May tók aftur fram í viðræðum við Tusk, að hún vilji falast eftir „djúpum og sérstökum samskiptum“ við Evrópusambandið eftir útgöngu Bretlands.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×