Viðskipti innlent

Kunnugleg meðul

Stjórnarmaðurinn skrifar
Krónan gamla er nú með allra sterkasta móti og raunar kannski ekki teikn um annað en hún haldi áfram að styrkjast til skamms tíma. Á Íslandi ríkir meiri hagvöxtur en í flestum ef ekki öllum samanburðarlöndum, skuldsetning ríkissjóðs er lítil og fer minnkandi og ferðamenn halda áfram að streyma til landsins.

Seðlabankinn hefur staðið í miklum og fordæmalausum gjaldeyriskaupum til að stemma stigu við styrkingu krónunnar. Ríkisstjórnin hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja: fjármagnshöft hafa verið afnumin og auknar álögur boðaðar á ferðamannaiðnaðinn. Fjármálaráðherra hefur meira að segja látið hafa eftir sér að lífeyrissjóðunum verði gert að fjárfesta erlendis í auknum mæli með hreinu valdboði. Allt hefur hins vegar komið fyrir ekki.

Á meðan heyrist gamalkunnugt harmakvein frá útgerðinni. HB Grandi hótar að hætta framleiðslu á Akranesi og bæjarstjórinn telur að lausnin sé að Reykvíkingar og aðrir eigendur Faxaflóahafna niðurgreiði starfsemina. Framkvæmdastjóri hagsmunasamtaka útgerðarinnar telur að svo geti farið að útgerðirnar neyðist til að flytja vinnsluna úr landi – þótt svo virðist raunar sem lög girði fyrir slíkar hrók­eringar.

Útgerðin hefur þó sem fyrr ekki yfirsýn til að benda á hið raunverulega vandamál – gjaldmiðilinn. Krónan hefur svo lengi sem elstu menn muna sveiflast ótæpilega og gert það allt að því ómögulegt að gera áætlanir til lengri tíma. Útgerðin hefur alltaf tekið ávinninginn sem fylgir veikri krónu og stungið honum í vasann, þegar krónan styrkist hefur svo verið treyst á að vinveitt stjórnvöld felli gengið.

Fjármálaráðherra má hins vegar eiga það, ólíkt frænda sínum í forsætisráðuneytinu, að hann lokar ekki augunum fyrir þeim ókostum sem fylgja krónunni. Hann hefur á síðustu dögum mælt fyrir því að Íslendingar taki upp annan gjaldmiðil, t.d. evru eða sterlingspund. Hugmyndir flokks hans, Viðreisnar, um myntráð eru sömuleiðis góðra gjalda verðar.

Sterk króna hefur það einfaldlega í för með sér að erfitt verður fyrir íslenska framleiðslu að standast alþjóðlega samkeppni. Til þess verður hún of dýr. Varanlega sterk króna gæti þýtt að eðlilegt skref væri að flytja framleiðslu úr landi.

Réttast væri fyrir sjávarútveginn að taka fjármálaráðherra til fyrirmyndar og horfa til varanlegra lausna á gjaldmiðilsklípu okkar Íslendinga, frekar en að hengja sig á gamaldags skammtímalausnir sem að endingu kosta almenning í landinu bæði lífskjör og beinhart skattfé.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×