Viðskipti innlent

Illugi í verkefnisstjórn um endurmat peningastefnu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur, Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur og Illugi Gunnarsson hagfræðingur og fyrrverandi ráðherra.
Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur, Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur og Illugi Gunnarsson hagfræðingur og fyrrverandi ráðherra. Vísir/GVA/Stefán
Þriggja manna verkefnisstjórn um endurmat peningastefnu hefur verið skipuð. Í henni eiga sæti Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur, Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur og Illugi Gunnarsson hagfræðingur og fyrrverandi ráðherra.

Markmið endurskoðunarinnar er að finna þann ramma peninga- og gjaldmiðilsstefnu sem til lengri tíma litið er heppilegastur til að styðja við efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika með tilliti til hagvaxtar, verðbólgu, vaxta, gengis og atvinnustigs að því er segir í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins.

Í endurskoðuninni verður rammi núverandi peningastefnu metinn, greint hvaða umbætur sé hægt að gera á peningastefnunni að því gefnu að halda skuli í megineinkenni núverandi peningastefnu sem byggir á verðbólgumarkmiði og greina aðra valkosti við peningamálastjórnun, svo sem útfærslur á gengismarkmiði, til dæmis með hefðbundnu fastgengi eða fastgengi í formi myntráðs.

Tinna Finnbogadóttir, hagfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, mun starfa með verkefnisstjórninni. Með verkefnisstjórn vinna einnig tengiliðir forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis og Seðlabanka Íslands.


Tengdar fréttir

Kaupa 90 milljarða aflandskróna

Tilkynnt hefur verið um samkomulag á milli Seðlabankans og eigenda aflandskróna í tengslum við afnám gjaldeyrishafta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×