Skoðun

Úrræði umboðsmanns skuldara

Ásta S. Helgadóttir skrifar
Umboðsmaður skuldara hvetur einstaklinga í greiðsluerfiðleikum til að fá endurgjaldslausa aðstoð embættisins við úrlausn á fjárhagsvanda. Embættið býður upp á almenna ráðgjöf, úrræði greiðsluaðlögunar og fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta. Þá er jafnframt hægt að senda embættinu erindi sem snerta málefni skuldara. Embættið veitir hins vegar ekki almenna lögfræðiráðgjöf.

Með umsókn um ráðgjöf geta einstaklingar fengið heildaryfirsýn yfir fjárhagsstöðu með tilliti til eigna, skuldbindinga og greiðslugetu. Ráðgjafi leitar leiða til lausna á fjárhagserfiðleikum, t.d. með skilmálabreytingum, frystingu lána eða samningum um greiðslu vanskila. Ef vægari lausnir duga ekki er lagt mat á hvort úrræði greiðsluaðlögunar geti leyst fjárhagserfiðleika viðkomandi.

Úrræði greiðsluaðlögunar er opið öllum þeim sem uppfylla ákveðin lagaleg skilyrði og berast nú að meðaltali um 28 umsóknir í mánuði hverjum. Meðal grunnskilyrða er að einstaklingur sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í fullum skilum með fjárskuldbindingar sínar. Í greiðsluaðlögun einstaklinga er leitast við að ná frjálsum samningum við kröfuhafa með það að markmiði að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Samningar um greiðsluaðlögun geta m.a. kveðið á um gjaldfrest, lægri afborganir og eftirgjöf skulda. Í dag hafa tekið gildi um 3.100 samningar um greiðsluaðlögun.

Fjárhagsaðstoð vegna skiptatryggingar er úrræði fyrir þá einstaklinga sem hyggjast leita gjaldþrotaskipta en hafa ekki tök á að standa undir tryggingu fyrir skiptakostnaði sem nemur 250.000 kr. Ákveðin skilyrði eru fyrir veitingu fjárhagsaðstoðar, m.a. að umsækjandi hafi reynt önnur greiðsluvandaúrræði eða umboðsmaður skuldara meti það svo að önnur úrræði séu ekki til þess fallin að leysa greiðsluvanda umsækjanda.

Umboðsmaður skuldara hvetur þá sem vilja kynna sér úrræðin að lesa sér til um þau á heimasíðu embættisins, www.ums.is. Á heimasíðunni er jafnframt hægt að leggja fram rafræna umsókn, annað hvort með íslykli eða rafrænum skilríkjum. Þá eru einstaklingar hvattir til að nýta símatíma embættisins á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 13-14, í síma 512-6600.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×