Erlent

Guðlaugur Þór kveðst anda léttar eftir hollensku kosningarnar

Atli Ísleifsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Vísir/Stefán

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segist anda léttar eftir að niðurstaða hollensku þingkosninganna í gær varð ljós.

Utanríkisráðherra segir í samtali við Vísi að Hollendingar séu nánir bandamenn okkar Íslendinga og það fjölþjóðlega samfélag sem hafi byggst upp í Hollandi sé að mörgu leyti fyrirmynd annarra ríkja.

„Ég, eins og aðrir sem fylgst hafa með stjórnmálaþróun í Evrópu, öndum talsvert léttar við að sú öfgafulla umræða og stjórnmálastefna sem keyrð hefur verið hart áfram af stjórnmálamanninum Geert Wilders náði ekki þeirri fótfestu sem óttast var,“ segir Guðlaugur Þór.

Hann segir Hollendinga vera öfluga þjóð með mikla sögu og ríka hefð fyrir málamiðlunum í stjórnmálum. „Eitt er kristalskýrt og það er að útlendingahatur og harðlínustefna í innflytjendamálum er ekki ríkjandi skoðun í Hollandi. Úrslit kosninganna benda til að hefðbundin mál, ríkisfjármál, heilbrigðismál og svo framvegis réðu för og nokkuð ljóst að í Hollandi eins og víða annars staðar í Evrópu eru kjósendur að hafna helstu valkostunum vinstra megin við miðjuna,“ segir ráðherra.

Flokkur Rutte stærstur
Þegar búið er að telja 97 prósent atkvæða eru Rutte og VVD-flokkur hans með 33 þingsæti af 150. Flokkur Rutte tapar raunar átta þingsætum frá síðustu kosningum, en flokkurinn verður áfram sá stærsti á þingi.

Flokkur popúlistans Geert Wilders verður annar stærsti – hlýtur tuttugu sæti og bætir við sig fimm. Í kosningabaráttunni var lengst af tvísýnt hvor flokkurinn yrði stærstur á þingi að kosningum loknum. 

Búist er við að stjórnarmyndunarviðræður gætu tekið nokkurn tíma, en að mið- og hægriflokkar munu nú leitast eftir að mynda stjórn.


Tengdar fréttir

Rutte: Holland hafnaði popúlisma

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, fagnaði sigri í nótt þegar ljóst var að flokkur hans, Frelsis- og lýðræðisflokkurinn, fékk flest atkvæði í þingkosningunum í gAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira