Erlent

Lést úr raflosti þegar snjallsími datt í baðkarið

Síminn sem féll í baðið var af gerðinni iPhone. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Síminn sem féll í baðið var af gerðinni iPhone. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Breskur maður á fertugsaldri lét lífið þegar hann hlóð snjallsíma á meðan hann var í baði. Réttarrannsókn leiddi í ljós að banamein hans hafi verið raflost þegar síminn datt ofan í baðvatnið.

„Þetta virðast sakleysisleg tæki en þau geta verið alveg jafnhættuleg og hárþurrkur á baðherberginu. Þeim ætti að fylgja viðvörun,“ sagði réttarmeinafræðingurinn Sean Cummings sem ætlaði að senda Apple, framleiðanda simans, skýrslu til að vara við hættunni.

Eiginkona mannsins koma að honum í baðinu en atvikið átti sér stað í desember. Réttarlæknirinn fann brunasár á hægri handlegg mannsins og hönd. Þá fannst framlengingarsnúra sem lá frá gangi og inn á baðherbergið.

Slys af þessu tagi eru sögð fátíð. The Guardian hefur eftir ráðgjafa hjá Slysavarnafélagi Bretlands að fólk þurfi að hafa varan á þegar það tekur raftæki með sér inn á baðherbergi. Það geti verið dauðans alvara að eiga við raftæki í sambandi í námunda við vatn.
Fleiri fréttir

Sjá meira