Körfubolti

Magnaðir átta dagar Elvars: Valinn besti leikmaður deildarinnar og kominn í undanúrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elvar Már Friðriksson hefur farið á kostum í vetur.
Elvar Már Friðriksson hefur farið á kostum í vetur. mynd/ssc

Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson hefur átt algjörlega geggjaða átta daga í bandarísku háskólakörfunni sem toppaði í gær.

Elvar átti enn og aftur stórleik fyrir Barry-háskólann þegar liðið vann Florida Tech, 87-84, í átta liða úrslitum úrslitakeppni Sunshine State-deildarinnar en það sem meira er var hann valinn besti leikmaður deildarinnar.

Deildin greindi frá því á heimasíðu sinni í gær hverjir eru í úrvalsliðunum og hverjir eru bestu leikmenn hennar og þar trónir íslenski landsliðsmaðurinn á toppnum.

Elvar Már leiddi Barry-háskólann til 21 sigurleiks, þar af þrettán innan deildarinnar en liðið tapaði aðeins fimm leikjum. Hann skoraði að meðaltali 16,5 stig í leik og gaf 7,8 stoðsendingarÞetta er annað árið í röð sem leikmaður Barry er útnefndur besti leikmaður deildarinnar en Elvar er annar leikmaðurinn í sögunni sem verður bæði nýliði ársins og leikmaður ársins í Sunshine State-deildinni. Hann var útnefndur nýliði ársins í fyrra.

Elvar Már hélt upp á verðlaunin með enn einu stórleiknum í nótt þegar Barry komst í undanúrslitin. Hann skoraði 20 stig, tók átta fráköst og gaf ellefu stoðsendingar í sigrinum á Florida Tech. Barry var átta stigum undir þegar sex og hálf mínúta var eftir en komst yfir með 14-0 spretti.

Þessir draumadagar Elvars byrjuðu fyrir rétt rúmri viku síðan þegar hann skoraði 27 stig og gaf tíu stoðsendingar í sigri á Florida Southern en með sigrinum tryggði liðið sér sigur í deildinni. Hann var valinn varnarmaður vikunnar og skoraði svo 37 stig og gaf níu stoðsendingar í lokaumferðinni.

Elvar og félagar mæta Palm Beach Atlantic í undanúrslitunum.


Tengdar fréttir

Frábær vika hjá Elvari varð ennþá betri

Er hægt að spila betur en Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson gerði með Barry-háskólanum í bandaríska háskólakörfuboltanum í síðustu viku? Það er í það minnsta ekki á færi allra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira