Viðskipti innlent

Skotsilfur Markaðarins: Ari Edwald með augun á formannsstól SA

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), þykir hafa komist vel frá sinni fyrstu alvöru prófraun í starfi eða sjómannaverkfallinu. Útgerðin hafi náð í gegn flestu af því sem lagt var upp með. Óánægja sjómanna með niðurstöðuna hafi birst í atkvæðagreiðslunni um kjarasamningana þar sem mjótt var á mununum.

Sigur útgerðarinnar hafi kristallast í léttum Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, sem aðstoðaði við að leysa landfestar á skipum fyrirtækisins daginn eftir að samið var og rétt áður en hann brá sér í viðtal á RÚV.

Vill taka við af Björgólfi

Búist er við því að nýr formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) verði kjörinn á aðalfundi samtakanna í lok næsta mánaðar. Björgólfur Jóhannsson, sem hefur gegnt því embætti í fjögur ár, hefur sjálfur sagt að hann sé enn undir feldi en flestir reikna engu að síður með að hann muni stíga til hliðar og einbeita sér að störfum sínum sem forstjóri Icelandair Group.

Sagt er að Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar og fyrrverandi framkvæmdastjóri SA, hafi mikinn hug á því að verða eftirmaður Björgólfs sem formaður samtakanna.

Krefjandi stjórnarseta

Sigrún Ragna Ólafsdóttir, fyrrverandi forstjóri VÍS, og Jakob Bjarnason, starfsmaður LBI eignarhaldsfélags (gamla Landsbankans), settust bæði í stjórn kísilvers United Silicon í Helguvík í síðasta mánuði. Þar hittu þau fyrir meðal annars Auðun Helgason, fyrrverandi knattspyrnumann, og Magnús Garðarsson, stærsta eiganda kísilversins.

Ljóst er að stjórnarmennirnir nýju koma inn í félagið við krefjandi aðstæður en starfsemin hefur verið plöguð af mengunar­­óhöppum og vandræðagangi síðan verksmiðjan var gangsett í nóvember.

Skotsilfrið er óvægin innsýn inn í bakherbergi viðskipta og atvinnulífs á landinu. Pistillinn birtist í Markaðnum í Fréttablaðinu á miðvikudögum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×