Viðskipti innlent

Hagnaður Vodafone minnkaði um 22%

Hörður Ægisson skrifar
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, segist búast við betri afkomu árið 2017.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, segist búast við betri afkomu árið 2017.
Hagnaður Vodafone nam 1.007 milljónum króna á árinu 2016 og dróst saman um 22 prósent frá fyrra ári. Þá lækkuðu heildartekjur fjarskiptafyrirtækisins um eitt prósent á milli ára og voru samtals 13.655 milljónir. EBITDA-hagnaður félagsins – afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta – nam 3.060 milljónum á síðasta ári og dróst saman um sex prósent.

Þetta kom fram í afkomutilkynningu sem Vodafone sendi frá sér í gær en þar segir að EBITDA-af­komuspá félagsins fyrir árið 2017 sé hækkuð á ný og er áætluð um 3.250 milljónir.

Í tilkynningu er haft eftir Stefáni Sigurðssyni, forstjóra Vodafone, að árið 2016 hafi að mörgu leyti verið „sérstakt ár í rekstri Fjarskipta hf. þar sem margt fór saman; miklar launahækkanir í tengslum við kjarasamninga, einskiptiskostnaður vegna húsnæðismála, hagræðingaraðgerða og vinnu sérfræðinga við áreiðanleikakönnun vegna hugsanlegra kaupa á 365 miðlum hf.

Á sama tíma höfðu markaðsaðstæður neikvæð áhrif á meðaltekjur af viðskiptavinum. Mótvægisaðgerðir gengu vel þar sem vöxtur í fjölda viðskiptavina hefur ekki verið meiri í seinni tíð eða 7%. Sjónvarpsvörur félagsins skiluðu mikilli aukningu í tekjum sem unnu á móti fyrrgreindum neikvæðum þáttum þrátt fyrir lækkun tekna í heildsöludreifingu sjónvarps. Horfur í rekstri félagsins fyrir árið 2017 eru betri, þar sem ætla má að hagræðingaraðgerðir árið 2016 og vöxtur viðskiptavina skili sér í betri rekstri árið 2017.“

Stefán segir að enn sé unnið að gerð kaupsamnings vegna fyrirhugaðra kaupa á ljósvaka- og fjarskiptahluta 365 miðla og eru bundnar vonir við að sú vinna klárist fyrir lok fyrsta ársfjórðungs.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×