Enski boltinn

Makélélé ráðinn aðstoðarþjálfari Swansea

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Makélélé er mættur til Swansea.
Makélélé er mættur til Swansea. vísir/getty

Paul Clement, knattspyrnustjóri Swansea City, hefur náð sér í góðan aðstoðarmann; Claude Makélélé, fyrrverandi leikmann Real Madrid og Chelsea.

Makélélé, sem er 43 ára, skrifaði undir samning sem gildir til loka tímabilsins.

Clement og Makélélé þekkjast vel en sá fyrrnefndi var í þjálfarateyminu hjá Chelsea þegar Makélélé lék með liðinu. Þá unnu þeir einnig saman hjá Paris Saint-Germain.

Makélélé átti afar farsælan feril en hann spilaði sem varnarsinnaður miðjumaður. Sú staða var raunar stundum nefnd eftir honum.

Makélélé lék með Real Madrid á árunum 2000-03. Hann varð tvívegis spænskur meistari með Madrídarliðinu og einu sinni Evrópumeistari.

Makélélé fór til Chelsea 2003 og lék með liðinu í fimm ár. Hann varð tvisvar enskur meistari og einu sinni bikarmeistari með Chelsea.

Makélélé var til skamms tíma knattspyrnustjóri Bastia en var rekinn þaðan í nóvember 2014.

Makélélé verður í fyrsta sinn á bekknum hjá Swansea þegar liðið mætir Arsenal á laugardaginn.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira