Innlent

Framkvæmdastjóri Bónus um Brúnegg: „Í hálfgerðu sjokki“

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar

Stærstu verslanir landsins hafa tekið Brúnegg úr sölu.



„Í ljósi þessara frétta var tekin sú ákvörðun að láta neytendur njóta vafans,“ segir Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus.



Hann gerir ekki ráð fyrir að taka eggin aftur til sölu. „Allar forsendur eru brostnar fyrir þessum viðskiptum. Við keyptum vöruna á ákveðnum forsendum, verðlögðum hana á ákveðnum forsendum og ég verð að segja að sem innkaupamaður er ég í hálfgerðu sjokki yfir þessu máli.“



Hvað með aðrar vörur sem hafa vistvæna merkingu?



„Í framhaldi af þessum fréttum höfum við sent póst á alla framleiðendur sem merkja vörur sínar vistvænar. Í ljósi staðreynda er ekkert hægt að treysta á þetta,“ segir Guðmundur og bendir á að undarlegt sé að eftirlitsaðilar hafi ekki upplýst kaupmenn fyrr um stöðuna hjá Brúneggjum.



„Þetta er neytendamál og dapurt að maður sé að sjá þetta í fyrsta skipti í fréttum í gær.“

Kristinn á hænsnabúinu á Teigum í Mosfellsbævísir/anton

Kristinn Gylfi Jónsson, annar eiganda Brúneggja,  segir stöðuna hörmulega.



„Flestir stærstu viðskiptavinir okkar hafa lokað á viðskipti. En við viljum að fjölmiðlar og viðskiptamenn komi og sjái að aðstaðan er nú til sóma. Svo sjáum við hvort við getum komið á viðskiptum á ný,“ segir Kristinn og bætir við að ef þeir nái ekki að koma eggjum í búðir þá sé rekstrinum sjálfhætt. Hann skilji aftur á móti viðbrögð neytenda og kaupmanna.



„Okkur þykir þetta mjög leiðinlegt og viljum biðjast afsökunar á þessum frávikum í okkar rekstri frá því í fyrra, sem við skömmumst okkar fyrir, og Matvælastofnun þurfti að beita úrræðum til að ljúka og klára. Okkur þykir þetta mjög leitt en þetta lýsir ekki stöðunni hjá okkur í dag.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×