Viðskipti innlent

Fyrrverandi eigandi Buy.is ákærður fyrir að svíkja rúmlega hundrað milljónir undan skatti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Friðjón Gunnar Björgvinsson.
Friðjón Gunnar Björgvinsson. vísir/vilhelm
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Friðjóni Gunnari Björgvinssyni, fyrrverandi eiganda netverslunarinnar Buy.is, fyrir meiriháttar brot gegn skatta-og bókhaldslögum og fyrir peningaþvætti. Þá er eiginkona hans einnig ákærð fyrir peningaþvætti. Meint skattsvik nema rúmlega 100 milljónum króna en málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Friðjóni er gefið að sök að hafa að hafa vantalið virðisaukaskatt vegna einkahlutafélagsins Gegn einokun á árunum 2012 og 2013 en samkvæmt ákæru nemur upphæðin 83,5 milljónum króna. Þá er hann jafnframt ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna einkahlutafélagsins 1949 en sú upphæð nemur um 2,5 milljónum króna.

Þá er Friðjón einnig ákærður fyrir að hafa ekki talið fram tekjur sem nema rúmlega 41 milljón króna. Með því sveik hann tæplega 16,5 milljónir undan skatti þar sem hann greiddi hvorki tekjuskatt né útsvar.

Friðjón og eiginkona hans eru síðan bæði ákærð fyrir peningaþvætti. Þannig er manninum gefið að sök að hafa lagt eða látið leggja rúmlega 21 milljón króna, sem var hluti ávinningsins af skattsvikunum, inn á bankariekning sinn hjá Landsbankanum. Þar geymdi hann peninginn þar til hann ráðstafaði honum til þess að greiða kreditkortareikninga þeirra hjóna.

Þá er Friðjón ákærður fyrir að hafa lagt tæplega 11,5 milljónir króna inn á bankareikning eiginkonu sinnar og er hún einnig ákærð fyrir peningaþvætti vegna þessa þar sem hún veitti upphæðinni viðtöku á bankareikningi sínum.

Undanfarin ár hafa ítrekað komið upp ásakanir á hendur Friðjóni um kennitöluflakk vegna viðskipta hans. Þannig var greint frá því í í DV ágúst 2014 að 12 af 17 hlutafélögum sem Friðjón tengist hafi verið lýst gjaldþrota.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×