Viðskipti innlent

Verður stærsta leigufélag landsins

Sæunn Gísladóttir skrifar
Leigufélagið Ásabyggð á Ásbrú sameinast Heimavöllum leigufélagi og mun sameinað félag undir merkjum Heimavalla hafa um tvö þúsund íbúðir í rekstri.
Leigufélagið Ásabyggð á Ásbrú sameinast Heimavöllum leigufélagi og mun sameinað félag undir merkjum Heimavalla hafa um tvö þúsund íbúðir í rekstri. Vísir/GVA
Leigufélagið Ásabyggð á Ásbrú sameinast Heimavöllum leigufélagi og mun sameinað félag undir merkjum Heimavalla hafa um tvö þúsund íbúðir í rekstri og stefnir félagið að skráningu á hlutabréfamarkað í lok næsta árs. Hið nýja sameinaða félag verður stærsta leigufélag landsins á almennum markaði segir í tilkynningu.

Ásabyggð á 716 leiguíbúðir á Ásbrú. Íbúðirnar hafa verið leigðar námsmönnum hjá Keili auk þess að vera leigðar á almennum markaði. Rekstur Ásabyggðar hófst fyrir liðlega 10 árum í tengslum við þróun og mótun framtíðarbyggðar gamla varnarliðssvæðisins undir forystu fasteignaþróunarfélagsins Klasa. Uppbyggingin á svæðinu hefur gengið vel og hefur nálægðin við flugvöllinn í Keflavík, sem er einn allra stærsti vinnustaður landsins, skapað mörg atvinnutækifæri fyrir íbúa svæðisins.

Heimavellir leigufélag var stofnað árið 2014 með samruna þriggja starfandi leigufélaga. Markmiðið var að byggja upp öflugt leigufélag að norrænni fyrirmynd sem gæti boðið einstaklingum og fjölskyldum upp á örugga langtímaleigu. Uppbygging félagsins hefur fyrst og fremst falist í sameiningum og yfirtökum starfandi leigufélaga. Í dag eiga og reka Heimavellir ríflega 960 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og í völdum þéttbýliskjörnum úti á landi. Þá hefur félagið gengið frá kaupum á um 300 nýjum leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu sem fara í útleigu á næstu mánuðum eins og tilkynnt var nýlega.

Sameinað félag

Að baki Heimavalla stendur breiður hópur 59 hluthafa sem telur meðal annars fjárfestingarfélög, lífeyrissjóði, tryggingafélög og einstaklinga. Við sameiningu félaganna er fyrirhugað að viðhalda núverandi samstarfi á Ásbrúarsvæðinu varðandi útleigu og þjónustu við viðskiptavini. Með tíð og tíma verða samstarfssamningar endurskoðaðir í ljósi þeirra breytinga sem verða á félaginu við sameiningu þess. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka er ráðgjafi eigenda Ásabyggðar í fyrirhuguðum samruna. Eftir viðskiptin bætast félögin Klasi fjárfesting hf., M75 ehf., Stotalækur ehf., Gani ehf. og Snæból ehf. í hluthafahóp Heimavalla.

Samanlögð heildarvelta Ásabyggðar og Heimavalla á fyrri helmingi þessa árs var um 960 milljónir króna. Sameinað félag mun eiga og reka yfir tvö þúsund leiguíbúðir á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, í Borgarnesi, á Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Reyðarfirði, Selfossi, í Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík og Reykjanesbæ. Starfsmenn sameinaðs félags verða 16 talsins í 14,5 stöðugildum.

 


Tengdar fréttir

Guðbrandur ráðinn til Heimavalla

Guðbrandur Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri leigufélagsins Heimavalla og mun hann hefja störf föstudaginn 1. apríl 2016.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×