Skoðun

Dó hann?

Sigríður Víðis Jónsdóttir skrifar
Það fyrsta sem slær hana er myrkrið. Svarta myrkur inni í miðjum bæ. Í svartnættinu sjást skuggar sem koma nær og nær. Bílljósin lýsa upp náföl andlit sem eru svo tekin að hún hefur aldrei séð annað eins. Janúarnóttin er ísköld.

„Frænka, ertu með brauð?“ Fólkið er svo aðframkomið að það stendur varla í fæturna. Getur ekki talað, bara hvíslað. „Frænka, áttu bita af brauði?“

Hanaa Singer er komin inn fyrir víggirta vegartálma sýrlenska hersins. Hér í bænum Madaya hefur verið rafmagnslaust í fjóra mánuði. Sýrlenski stjórnarherinn og hersveitir hliðhollar honum hafa setið um bæinn og haldið íbúunum í herkví – enginn fer inn, enginn út. Kaupmenn fá ekki að flytja nein matvæli inn í bæinn. Þetta er strategískur og kolsvartur leikur í stríðinu. Áður en veröldin fór á hvolf var hér fallegur, lítill bær sem var þekktur fyrir hreint vatn, ferska ávexti og blómstrandi ferðamannaiðnað uppi í fjöllunum.

Núna hvíslar fólk sögur af súpu úr vatni og laufum sem það borðar og gefur börnunum sínum. Súpu úr vatni og grasi. Það hringsnýst allt í höfðinu á Hönuu Singer. Er þetta virkilega að gerast á 21. öldinni? Hún er yfirmaður UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Sýrlandi og segir mér þessa sögu nokkrum mánuðum seinna.

Geta ekki grátið

Læknir í blóðugum sloppi leiðir hana inn í dimmt herbergi í húskjallara. Þetta er heilsugæslan í bænum þessa mánuðina, læknirinn sá eini á meðal strandaðra bæjarbúa. Málningin er flögnuð af veggjunum og á gólfinu liggja börn sem eru svo veikburða að þau geta ekki hreyft sig.

Á staðnum er einungis eitt rúm. Á því eru tvær hrúgur. Eftir því sem Hanaa lítur dýpra inn í myrkrið breytast þær í manneskjur. Annar sjúklinganna er 16 ára gamall. Heitir Ali og er hálfmeðvitundarlaus. Nær dauða en lífi.

Þau hlaupa til og reyna björgunaraðgerðir. Hún byrjar að hnoða. Hnoðar og hnoðar. Allt kemur fyrir ekki. Líf hans fjarar út, í skítugum kjallara í sturluðu stríði, beint fyrir framan augun á þeim. Ali deyr hvorki vegna sjúkdóms né slysfara, heldur vegna þess að hann var sveltur til dauða.

Hanaa heyrir sjúklinginn í rúminu við hliðina á Ali hvísla lágt. „Dó hann?“ Sjúklingurinn er enn með lífsmarki og heldur dauðahaldi í fingurinn á henni.

Fjölskylda Alis er inni í herberginu en of veikburða til að gráta. Þau hanga varla uppi. Fyrir utan hvíslið úr rúminu er þögn í herberginu.

Fjórum mánuðum áður en þessi mynd var tekin fóru myndir af Mohammed skelfilega vannærðum og illa förnum um eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlum. Þarna er eldhress Mohammed búinn að ná sér og spjallar við Dr. Raiju. 
Rifbein

Andartak líður, svo æðir allt af stað. Teymi UNICEF, Rauða hálfmánans og fleiri samtaka hraðar sér í að sinna börnunum í kjallaranum og dreifa hjálpargögnum í bænum. Þau mega engan tíma missa.

Læknirinn Raija Sharhan leiðir aðgerðir UNICEF og skoðar gaumgæfilega öll börnin á staðnum. Næringarástand þeirra er skelfilegt. Mohammed litli er átta ára og hefur ekki borðað í sjö daga, hann er í þoku og á erfitt með að tala, rifbeinin skaga út í loftið.

Limar er sjö mánaða og bráðavannærð. Hún er svo veikburða að hún nær ekki að taka upp neina næringu og mun án hjálpar annað hvort verða fyrir óafturkræfum skaða eða deyja.

Hjálparstarfsfólkið hjúkrar henni og öðrum og vinnur sleitulaust til klukkan fimm um nóttina, þegar hermenn ýta þeim út úr bænum. Þau skilja eftir vítamínbætt jarðhnetumauk, saltupplausnir, sérstakar mjólkurblöndur og það sem til þarf fyrir lækninn í bænum og hetjurnar sem standa vaktina með honum svo þau geti hlúð að vannærðu börnunum.

Næstu daga fara myndir og vídeó úr ferðinni til Madaya eins og eldur í sinu um heimsbyggðina. Mohammed litli verður tákngervingur hörmunganna í Madaya. Stóru brúnu augun hennar Limar vekja upp sterkar tilfinningar, gráturinn hennar sem líkist frekar ýlfri.

Þegar ég hitti Hönuu Singer í maí hefur hún góðar fréttir að færa, mitt í öllum hörmungunum. UNICEF hefur tekist að fara fjórum sinnum aftur til Madaya ásamt öðrum hjálparsamtökum, með bílalest fulla af hjálpargögnum, og hefur getað fylgt meðferð vannærðu barnanna eftir.

Það sem meira er: Mohammed er búinn að ná sér og meira að segja farinn að mæta aftur í skólann sinn. Limar hefur líka sýnt ótrúlegar framfarir og er öll að braggast!

Hitastigið fellur … enn á ný

Og nú er kominn október. Enn er setið um Madaya. Enn harðnar stríðið í Sýrlandi. Áfram halda flutningar hjálpargagna inn í litla bæinn í fjöllunum en þeir kosta stöðugar samningaviðræður. Stríðandi fylkingar svífast einskis.

Það líður að vetri og Dr. Raija heldur áfram að hjúkra vannærðum börnum. Hanaa Singer skipuleggur flutninga á hreinu vatni til íbúa Aleppo og undirbýr enn einar aðgerðirnar til að bregðast við kuldanum sem fylgir vetrarhörkunum. Hún ætlar sér að ná til tveggja og hálfrar milljónar barna í Sýrlandi og nágrannaríkjunum, neyðin er svo mikil. Þegar ég er sjálf um það bil að bugast yfir þessu klikkaða stríði reyni ég að minna mig á það sem hún sagði í vor: „Ég hef aldrei verið stoltari af neyðaraðgerðum hjá UNICEF. Við erum þarna úti og baráttan ber árangur.“ Framlög heimsforeldra og í neyðarsöfnun UNICEF gegna hér ómetanlegu hlutverki.

Við munum sannarlega standa vaktina þangað til stríðinu lýkur og vera til staðar áfram eftir það. En það er ekki nóg. Grundvallaratriðið er að stöðva stríðsglæpina, loftárásirnar, morðin og eyðilegginguna. Hinar ólýsanlegu hörmungar í Sýrlandi duttu ekki af himni ofan heldur eru mannanna verk.

Eitt af því sára og ljóta við stríðið er að sjá hvað það gerir börnum. Börnum eins og Mohammed sem var nær dauða en lífi eftir að hafa verið sveltur í umsetnum bæ, Limar litlu sem á ótrúlegan hátt tókst að bjarga og Ali sem við misstum. Það er sameiginleg skylda okkar að verja réttindi þeirra.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×