Skoðun

Ís­land hástökkvari í mál­efnum hin­segin fólks

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar

Þær gleðifréttir bárust í gær að Ísland hefur tekið stökk upp í 2. sæti á nýuppfærðu Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA Europe) og er áfram í efsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu. Frá 2018 hefur Ísland því farið upp um 16 sæti á Regnbogakortinu en það ár var Ísland í 18. sæti. Það er mikilvægt fyrir okkur hinsegin fólk að búa í samfélagi þar sem við erum þátttakendur og metin að verðleikum. Að því sögðu þá gildir það því miður ekki enn um allt hinsegin fólk á Íslandi. Því þarf að breyta, en í dag fögnum við góðum árangri.

Ísland farið úr 18. sæti í 2. sæti á sex árum

Sá árangur sem við uppskerum nú er afrakstur mikillar vinnu fjölmargra aðila á undanförnum árum. Miklar réttarbætur hafa orðið í málefnum hinsegin fólks frá því ríkisstjórn okkar tók við árið 2017, þ.m.t. lög um kynrænt sjálfræði, ný ákvæði í hegningarlögum um hatursglæpi og aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks sett af stað. Einnig vil ég nefna bann við bælingarmeðferðum sem samþykkt var á Alþingi í fyrra og lagt var fram af Hönnu Katrínu Friðriksson og fleiri þingmönnum.

Mikilvægt framlag Samtakanna 78

Samtökin 78 hafa leitt mannréttindabaráttu hinsegin fólks síðustu áratugi, lyft grettistaki og náð stórkostlegum árangri í starfsemi sinni. Ráðgjafaþjónusta Samtakanna við hinsegin fólk og aðstandendur þeirra er ómetanleg. Takk Samtökin 78 fyrir að standa vörð um mannréttindi okkar og styðja við hinsegin fólk beint og milliliðalaust.

Bágborin staða í mörgum Evrópulöndum – baráttan heldur áfram

Að lokum verð ég að nefna að staða hinsegin fólks er bágborin í fjölmörgum Evrópulöndum, eins og Regnbogakortið sýnir glögglega. Íslensk stjórnvöld hafa lagt sérstaka áherslu á að Ísland tali hátt og skýrt fyrir réttindum hinsegin fólks bæði í tvíhliða samskiptum við önnur ríki, í gegnum ríkjabandalög sem Ísland er aðili að og á vettvangi alþjóðastofnana. Mikilvægt er að Ísland haldi því mannréttindastarfi áfram af krafti og eldmóð.

Mannréttindabaráttu lýkur aldrei en gleðjast má í dag yfir þeim góða árangri sem Ísland hefur náð. Til hamingju Ísland í öllum regnbogans litum.

Höfundur er formaður Vinstri grænna og félags- og vinnumarkaðsráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×