Erlent

Obama heitir frekari þvingunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur heitið frekari viðskiptaþvingunum gegn Norður-Kóreu vegna tilrauna þeirra með kjarnorkuvopn. Hann segir að Bandaríkin muni aldrei sætta sig við að einræðisríkið búi yfir kjarnorkuvopnum.

Norður-Kórea sprengdi í nótt kjarnorkusprengju í fimmta sinn á tíu árum og er talið að sprengjan hafi verið sú stærsta hingað til. Þá hefur ríkið framkvæmt fjölmargar tilraunir með eldflaugar á undanförnum mánuðum og halda yfirvöld í Pyongyang því fram að vísindamönnum þeirra hafi tekist að minnka kjarnorkuvopn ríkisins svo að mögulegt sé að koma þeim fyrir í eldflaugum.

Þeir segja slíkt vopn hafa verið sprengt í nótt.

Sjá einnig: Öryggisráðið kallað saman vegna kjarnorkutilraunar N-Kóreu

Obama sagðist í dag hafa rætt við leiðtoga Suður-Kóreu og Japan og að ríkin þrjú myndu vinna með öðrum ríkjum að „þýðingarmiklum skrefum“, þar á meðal frekari viðskiptaþvingunum til að koma yfirvöldum Norður-Kóreu í skilning um að ólögleg og hættuleg háttsemi sem þessi hefði afleiðingar.

Viðskiptaþvinganir hafa fylgt öllum kjarnorkutilraununum fimm, en það virðist ekki hafa dregið úr metnaði Norður-Kóreu.

Sérfræðingar segja kraft sprengingarinnar í nótt hafa jafnast á við 10 kílótonna sprengjuna sem Bandaríkin vörpuðu á Hiroshima árið 1945.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×