Erlent

Lögreglan hefur drepið hundruð í Filippseyjum

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Lögreglan í Filippseyjum segir að tæplega 600 einstaklingar sem voru grunaðir um fíkniefnasölu eða neyslu hafi verið drepnir án dóms og laga frá því í júlí. Sameinuðu þjóðirnar kalla eftir því að Rodrigo Duterte, nýr forseti landsins, stöðvi drápin sem eru liður í „átaki“ forsetans gegn fíkniefnum.

Fjölmiðlar í landinu segja fjölda látinna þó nærri þúsund þar sem vopnuð gengi borgara hafi drepið fjölmarga í Filippseyjum.

Rúmlega hálf milljón manna munu hafa gefið sig fram við lögreglu og viðurkennt að neyta fíkniefna. Þau eru látin skrifa undir samning um að gera það aldrei aftur og lögreglan gengur á milli húsa og kannar hvort að samningunum sé fylgt eftir.

Samkvæmt Sky News hæddist Dutert að Sameinuðu þjóðunum í ræðu í vikunni. Hann sagði að þeir ættu frekar að einbeita sér að átökunum í Mið-Austurlöndum en sér. Þá sagði hann við lögregluþjóna að hann myndi fara fyrir dómara í þeirra stað ef þeir yrðu sakaðir um morð.

„Ef þeir veita ofbeldisfulla mótspyrnu, ef þið óttist um lífi ykkar við handtöku, skjótið hann og drepið hann. Get ég verið skýrari en það?“

Þá hefur forsetinn heitið því að tvöfalda laun lögregluþjóna á árinu og að koma fíklum fyrir í „endurhæfingarbúðum“ sem komið yrði upp í herstöðvum.


Tengdar fréttir

Duterte sór embættiseið á Filippseyjum

Hinn umdeildi nýkjörni forseti Filippseyja, hörkutólið Rodrigo Duterte sór embættiseið sinn í morgun en hann vann stórsigur í forsetakosningum sem fram fóru í maí. Duterte, sem er fyrrverandi borgarstjóri í Davao, kollvarpaði valdakerfi landsins með sigrinum og lofaði blóðugu stríði við glæpagengin í landinu og að hart verði tekið á spillingu í stjórnsýslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×