Erlent

Kínverjar senda Bandaríkjunum tóninn

Samúel Karl Ólason skrifar
Kínversk herskip við bryggju í borginni Busan.
Kínversk herskip við bryggju í borginni Busan. Vísir/EPA
Bandaríkin ættu ekki að grípa til aðgerða sem skaða fullveldi Kína og draga úr öryggi í Suður-Kínahafi. Þetta voru skilaboð utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, til John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í gær. Ráðherrarnir töluðu saman í síma fyrir úrskurð alþjóðlegs dómstóls um tilkall Kínverja til hafsins umdeilda.

Þann 12. júlí mun Alþjóðlegi hafréttardómstóllinn í Hauge fella úrskurð í máli Filippseyja gegn Kína. Kínverjar hafa gefið út að úrskurðurinn verði aldrei viðurkenndur, sama hver hann verður.

Hafsvæðið sem Kínverjar gera tilkall til nær inn þau svæði sem Víetnam, Filippseyjar, Malasía, Brúnei og Taívan gera tilkall til.

Kína segir dómstólinn umboðslausan þar sem málið snúi að fullveldi ríkis, en forsvarsmenn dómstólsins segja málið snúa að hafrétti.

Hér má sjá yfirlitskort yfir svæðið sem Kínverjar gera tilkall til.Vísir/GraphicNews
Svæðið þykir mjög mikilvægt fyrir Kínverja, sem og önnur ríki á svæðinu, þar sem umtalsverður hluti allra skipaflutninga til landsins fer í gegnum Suður-Kínahaf. Þar á meðal er olíuinnflutningur Kína frá Mið-Austurlöndum og Afríku. Svæðið er einnig talið ríkt af auðlindum.

Töluverð spenna er nú á svæðinu þar sem herskip bæði Kína og Bandaríkjanna eru nú. Sjóher Kína hefur verið við æfingar við Paracel eyjaklasann á norðurhluta hafsvæðisins, en bandarísk herskip hafa verið á ferðinni sunnar, við Spratly eyjarnar.

Þá hafa Bandaríkjamenn sent flugmóðurskipið USS Ronald Reagan og fylgiskip þess til Suður-Kínahafs. Talsmaður Kyrrahafsflota Bandaríkjanna segir ferðir skipanna vera í samræmi við alþjóðalög.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, fundaði með Wang í dag og kallaði hann eftir því að friðsamleg lausn yrði fundin á deilunni. Wang sagði Kínverja leita slíkra lausna, en að Kína myndi ekki sætta sig við að vera þvingað til aðgerða af dómstólum.

Kína hefur sakað Bandaríkin um hervæðingu Suður-Kínahafs með því að senda herskip sín á vettvang. Bandaríkin segjast hafa áhyggjur af hernaðaruppbyggingu Kína á svæðinu. Rif og litlar eyjur hafa verið byggðar upp á síðustu árum og hafa flugvellir og flotastöðvar verið byggðar þar. Þá hefur Kína komið langdrægum flugskeytum fyrir á eyjum í hafinu.

Hér má sjá skýringarmyndband kínversku sjónvarpsstöðvarinnar CCTV, sem rekin er af ríkinu, en myndbandið var birt nú á dögunum. Skýringarmyndband AFP fréttaveitunnar.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×