Innlent

„Mér þykir afskaplega leiðinlegt hvað ég hef verið misskilinn“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Óttar Guðmundsson, geðlæknir
Óttar Guðmundsson, geðlæknir vísir/ernir
Óttar Guðmundsson, geðlæknir, segir að sér þyki leiðinlegt hversu margir hafi misskilið orð sín í viðtali við Fréttablaðið þann 22. apríl síðastliðinn. Viðtalið vakti mikla athygli og gagnrýndu margir orð Óttars en í viðtalinu talaði hann meðal annars um það sem hann vill meina að sé ofnotkun á orðinu áfallastreita og áfallastreituröskun.

„Mér þykir afskaplega leiðinlegt hvað ég hef verið misskilinn, sérstaklega þetta viðtal sem var í Fréttablaðinu fyrir 10 dögum, hvað það hefur verið misskilið. Menn hafa verið að túlka það þannig að ég sé að mæla gegn allri áfallahjálp, sé að mæla gegn því að fólk leiti sér aðstoðar. Það er mín skoðun að við eigum ekki að sjúkdómsvæða allt. Við eigum ekki að lifa í samfélagi þar sem öll áföll eru sjúkdómsvædd þannig að ef það kviknar í öskutunnu á bakvið húsið þitt þá þurfirðu áfallahjálp. Það er bara þannig í dag að það er endalaust verið að leita eftir einhverju sem við köllum áföll,“ sagði Óttar í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon í morgun.

Óttar sagðist jafnframt vita hversu mikilvægt það væri að vinna með ákveðin stór áföll og hjálpa fólki í gegnum þau.

„Þannig að mér finnst mjög leiðinlegt hvað þetta hefur verið afbakað og kannski misskilið. Allt í einu er ég orðinn einhver andstæðingur þess. Þetta er lifibrauð mitt, það er það sem ég lifi af að tala við fólk sem hefur lent í vandræðum og reyna að vinna það með því.“

Óttar gagnrýnir að allt sé gert að áfalli sem þurfi að vinna með og vill meina að sjúkdómsvæðing sé orðin algeng í dag.

„Ég er kannski ekkert að mæla á móti því að fólk opinberi sig í fjölmiðlum, þessi fórnarlambsvæðing í samfélaginu, en ég kannski set spurningamerki við það að það sé mjög gagnlegt að gera það,“ sagði Óttar í Harmageddon en hlusta má á viðtalið í heild í spilaranum hér að neðan.


Tengdar fréttir

Enginn má lenda í neinu

Óttar Guðmundsson ræðir ferilinn, fíknisjúkdóma og dálæti fjölmiðla á viðtölum við ,,aumingja vikunnar“. Hann segir engan geta lifað algjörlega sléttri og felldri tilveru. Manneskjan þoli nefnilega ansi margt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×