Innlent

Kókaín í golfkylfum: Íslenska konan látin laus gegn tryggingu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leið kvennanna frá Reykjavík og til Cancun með millilendingu í Toronto. Þær fóru þó aðeins með golfsettin utan og flúðu heim án þeirra.
Leið kvennanna frá Reykjavík og til Cancun með millilendingu í Toronto. Þær fóru þó aðeins með golfsettin utan og flúðu heim án þeirra. Vísir

Rúmlega fertug íslensk kona hefur verið látin laus úr gæsluvarðhaldi í Toronto í Kanada gegn tryggingu. Hún má þó ekki yfirgefa Kanada á meðan mál hennar er til meðferðar. Þetta staðfestir fjölmiðlafulltrúi hjá konunglegu kanadísku riddaralögreglunni í samtali við Vísi. Tryggingaféð nemur 25 þúsund Kanadadölum sem samsvarar um 2,3 milljónum íslenskum krónum.

Konan hefur verið ákærð fyrir innflutning á ólöglegum fíkniefnum til Kanada en 974 grömm af kókaíni fundust í golfsetti sem hún hafði sótt til Toronto og hugðist flytja til Íslands.

Konan kom fyrir dómara á föstudaginn en samkvæmt fjölmiðlafulltrúanum hefur hún enn ekki tekið afstöðu til ákærunnar.

Golfsettin fjögur í Leifsstöð áður en konurnar fjórar héldu í ævintýraferð til Cancun.

Óvænt frí og enn óvæntara golfsett
Vísir greindi frá málinu þann 12. febrúar en það er hið undarlegasta. Konan tilkynnti þremur vinkonum sínum í nóvember í fyrra að hún hefði unnið skemmtiferð til Cancun í Mexíkó í ónefndum leik og bauð þeim með. Í flugstöð Leifs Eiríkssonar fengu konurnar hvert sitt golfsettið til að taka með og sagði hún kunningjakonum sínum að planið væri að spila golf í sólinni í Mexíkó. Engin kvennanna mun vera kylfingur.

Konurnar fjórar millilentu í Toronto áður en til Mexíkó var komið. Þar fór konurnar þrjár að gruna að ekki væri allt með felldu eftir að golfsettin voru skilin eftir í móttökunni og þangað mætti íslenskur maður sem sýndi settunum áhuga. Sá á meðal annars sex ára dóm að baki fyrir fíkniefnainnflutning.

Óttaslegnar konurnar héldu heim fyrr en ætlað var og fór konan með vinkonum sínum. Í Toronto stungu þær vinkonuna af sem kom til Íslands með flugi á eftir hinum þremur.

Frí skemmtireisa til Cancun breyttist í martraðarkennda skelfingu, þegar konurnar voru orðnar sannfærðar um að nota ætti þær sem burðardýr. Vísir

Kemur fyrir dómara 18. mars
Nokkrum vikum síðar fékk konan ábendingu um að póstsending til hennar hefði verið stöðvuð í Toronto. Um var að ræða golfsett. Hún þyrfti að koma utan til að ná í golfsettið.

Eftir að hafa veitt settinu viðtöku var hún handtekin á leið sinni í flug áleiðis aftur til Íslands. Um svipað leyti fann lögregla aðra póstsendingu á nafni konunnar og var aftur um að ræða golfsett.

Tæplega kíló af kókaíni fundust og hefur konan setið í gæsluvarðhaldi í Toronto frá 18. desember og þangað til á föstudaginn. Hún mun næst koma fyrir dómara þann 18. mars.


Tengdar fréttir

Flúðu skelfingu lostnar frá Cancun

Íslensk kona í gæsluvarðhaldi í Kanada. Talin hafa reynt að narra þrjár vinkonur sínar til að gerast burðardýr. Ótrúleg frásögn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira