Handbolti

Guðmundur fær erfiðan riðil í forkeppni ÓL

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Vísir/Getty

Guðmundur Guðmundsson segir að riðillinn sem Danmörk fékk í forkeppni Ólympíuleikanna í Ríó sé afar sterkur en Danir verða í riðli með Króatíu, Noregi og Barein. Tvö lið úr riðlinum fara á leikana í sumar. Í dag kom endanlega í ljós hvernig skipan riðlanna þriggja í undankeppninni verður.

„Þetta er erfiður riðill sem við fengum. Við sáum Noreg og Króatíu spila um bronsið á EM í dag og þetta eru tvö mjög góð lið,“ sagði Guðmundur í viðtali sem birtist á heimasíðu danska handknattleikssambandsins í dag.

Danir hafa sótt um að fá að halda riðilinn í Danmörku en keppt verður í honum í apríl. „Það væri mikill kostur að fá að spila á heimavelli. Riðillinn er það erfiður að það hefði mikið að segja að fá að spila í Danmörku.“

Danmörk endað í sjötta sæti á EM í Póllandi eftir að hafa tapað fyrir Frakklandi í lokaleik sínum.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig riðlarnir eru skipaðir:

1. riðill: Pólland, Makedónía, Síle og Túnis.
2. riðill: Spánn, Slóvenía, Íran og Svíþjóð.
3. riðill: Danmörk, Króatía, Noregur og Barein.

Tólf lið keppa á leikunum í sumar. Þau sex lið sem eru örugg áfram eru Brasilía (gestgjafi), Frakkland (heimsmeistari), Argentína (Ameríkumeistari), Katar (Asíumeistari), Þýskaland (Evrópumeistari) og Egyptaland (Afríkumeistari).


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira