Innlent

Enginn samningur verið gerður um makaskipti

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Hafnartorg.
Hafnartorg. Vísir/Valli

Enginn samningur hefur verið gerður um makaskipti á stjórnarráðsreitnum og svokölluðu Hafnartorgi, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Forsætisráðuneytið hefur að undanförnu átt í viðræðum við eigendur lóðarinnar við Hafnartorg, Landstólpa þróunarfélag, um að aðilar skiptist á lóðum.

„Það er ekki komið neitt mál til þess að samþykkja í ríkisstjórn. Það eina sem hefur gerst í þessu er að fulltrúar ráðuneytisins hafa fallist á boð þessa fyrirtækis um að eiga viðræður um aðkomu að þessu húsnæði á einn eða annan hátt. Þar eru menn opnir fyrir því að skoða ólíkar leiðir og ég ætla ekki að fara að skipa mönnum fyrir úr þessari pontu eða annars staðar frá um það hvaða lending á að nást í því á meðan við vitum ekki hvað raunverulega stendur þarna til boða,“ sagði Sigmundur í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Lengi verið til skoðunar að finna nýtt húsnæði
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði hvort forsætisráðherra hafi verið falið þetta hlutverk, að ráðstafa eignum ríkisins, sem samkvæmt forsetaúrskurði eigi að vera á hendi fjármálaráðherra.

Sigmundur sagði að komi til undirritunar samnings um einhvers konar makaskipti, leigusamnings eða annars slíks, fari það eftir þeim reglum sem almennt gildi um slíkt. Lengi hafi verið til skoðunar að finna nýtt húsnæði fyrir stjórnarráðið eða hluta þess.

„Sú þörf er orðin mjög knýjandi núna vegna þess að að minnsta kosti forsætisráðuneytið er að missa það húsnæði sem megnið af ráðuneytinu hefur haft aðstöðu í. Þar af leiðandi er óhjákvæmilegt að leita leiða til að leysa úr því,“ sagði Sigmundur.


Tengdar fréttir

Undrast að ekki sé leitað besta tilboðs

Formaður Samfylkingar segir kapp forsætisráðherra veikja samningsstöðu ríkisins. Bjóða þurfi út húsnæði fyrir Stjórnarráðið til að fá hagstæðasta verðið fyrir ríkið. Málið ekki rætt innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Skipulag breytist ekki við makaskipti

Forsætisráðuneytið á í viðræðum við eigendur lóðarinnar við Hafnartorg, Landstólpa þróunarfélag, um að aðilar skiptist á lóðum. Þannig fengi Landstólpi lóð stjórnarráðsins við Skúlagötu en stjórnarráðið fengi lóðina á Hafnartorgi undir starfsemi ráðuneyta.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira