Erlent

Staðfesta dauða Jihadi John

Samúel Karl Ólason skrifar
Mohammed Emwazi eða Jihadi John.
Mohammed Emwazi eða Jihadi John. Vísir/AFP

Íslamska ríkið birti langa minningargrein um Bretann Mohammed Emwazi, sem var böðull samtakanna, í nýjasta tölublaði tímaritsins Dabiq. Þar segir að hann hafi fallið í loftárás í borginni Raqqa í Sýrlandi. Hann var þekktur fyrir að taka vestræna gísla samtakanna af lífi í myndböndum sem samtökin birtu.

Bandaríkin héldu því fram í nóvember að Emwazi hefði fallið í loftárás. Takmark árásarinnar var að ráða hann af dögum.

Sjá einnig: Jihadi John fallinn

Í minningargreininni er fjallað um líf Emwazi og þar segir að hann hafi ungur flust til London með foreldrum sínum. Þar hafi hann lært að hata borgina og „trúleysingjana“ sem í henni búa. Hann hafi farið til Sómalíu og síðar flúið frá Bretlandi til þess að ganga til liðs við ISIS, þrátt fyrir að vera undir eftirliti leyniþjónustu Bretlands.

Þar segir einnig að einungis þeir sem þekktu Emwazi, sem gekk undir nafninu Abu Muharib al-Muhajir, hafi kynnst „miskunn hans, gæsku og örlæti“.

Emwazi sást fyrst í ágúst 2014 þegar myndband af honum myrða bandaríska blaðamanninn James Foley var birt á netinu. Þá varð hann þekktur sem Jihadi John, en það var ekki fyrr en í febrúar í fyrra sem í ljós kom að hann væri Emwazi.

Einnig voru birt myndbönd af honum að taka af lífi þá Steven Sotloff, David Heines, Alan Henning, Abdul-Rahman Kassig og Kenji Goto.

Samkvæmt BBC voru þrír drónar notaðir til árásarinnar. Einn breskur og tveir frá Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn skutu á bílinn sem Emwazi var í og talið er að ein manneskja hafi verið með honum í bílnum. David Cameron sagði í nóvember að það hefði verið rétt að ráðast á hann og að yfirvöld í Bretlandi hefðu unnið sleitulaust að því að ráða hann af dögum.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira