Erlent

Hundruðum manna bjargað þegar báti flóttafólks hvolfdi á Miðjarðarhafi

guðsteinn bjarnason skrifar
Tugir manna létu lífið þegar bát hvolfdi út af ströndum Líbíu í gær.
Tugir manna létu lífið þegar bát hvolfdi út af ströndum Líbíu í gær. nordicphotos/AFP
Talið er að 600 manns hafi verið um borð í yfirfullum bát, sem hvolfdi út af ströndum Líbíu í gær. Tugir drukknuðu í hafinu en meira en 400 manns björguðust.

Bátnum hvolfdi þegar of margir fóru yfir í aðra hlið hans eftir að björgunarskip komu á vettvang. Svo virðist sem of margir hafi í einu reynt að komast í björgunarbát. Tvö skip voru send á vettvang eftir að neyðarkall barst frá bátnum. Annað var skip hjálparsamtakanna Lækna án landamæra, en hitt var írskt eftirlitsskip. Fleiri skip komu einnig á vettvang og nokkrar þyrlur voru notaðar við aðgerðirnar.

Miðjarðarhaf hefur undanfarin misseri verið hættulegasti staður heims fyrir flóttafólk. Það sem af er þessu ári hafa meira en 2.000 flóttamenn drukknað í Miðjarðarhafi. Á síðasta ári drukknuðu þar 3.279 flóttamenn. Flestir koma þeir frá Sýrlandi og Erítreu og freista þess að komast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu í von um að finna þar öryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×