Erlent

Cameron varar flóttamenn við því að koma

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
David Cameron ætlar að vísa öllum ólöglegum innflytjendum úr landi.
David Cameron ætlar að vísa öllum ólöglegum innflytjendum úr landi. nordicphotos/afp
„Allt sem er hægt að gera til að tryggja landamæri okkar verður gert,“ sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í viðtali hjá BBC í gær. Fjöldi flóttamanna hefur undanfarið reynt að komast til Bretlands frá Frakklandi í gegn um Ermarsundsgöng.

Um 3.500 manns hafa reynt að komast í gegn um Ermarsundsgöng undanfarna viku. Talið er að um 37 þúsund hafi reynt við förina það sem af er ári, níu hafa látist.

„Ef þú kemur hingað ólöglega geturðu ekki tekið bílpróf, þú getur ekki tekið út af bankareikningi, þú getur ekki leigt hús. Við munum vísa þér úr landi ef þú kemur hingað. Bretland verður enginn griðastaður fyrir flóttamenn,“ sagði forsætisráðherrann.

„Fólk vill koma til Bretlands því hér eru mörg störf og hér er frábært að búa. Til að stemma stigu við straumnum verðum við að bæta landamæraeftirlit og vísa ólöglegum innflytjendum úr landi.“

David Davies, þingmaður íhaldsmanna á Bretlandsþingi, kallaði eftir því á þingfundi að herlið yrði sent að landamærunum til að hjálpa til við gæslu.

Peter Sutherland, sem vinnur að innflytjendamálum fyrir Sameinuðu þjóðirnar, sagði orðræðuna í Bretlandi öfgafulla og einkennast af útlendingahatri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×