Innlent

Frumvarp um afnám hafta í þessari viku

Kolbeinn Óttarsson Proppe skrifar
Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, hafa haldið málinu mjög þétt að sér og aðeins örfáir vita hvað í frumvarpinu felst.
Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, hafa haldið málinu mjög þétt að sér og aðeins örfáir vita hvað í frumvarpinu felst.
Frumvarp um afnám gjaldeyrishafta er á lokametrunum og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er stefnt að því að það verði kynnt fyrir ríkisstjórn á morgun. Til stóð að kynna frumvarpið á ríkisstjórnarfundi á föstudag, en úr því varð ekki. Heimildir Fréttablaðsins herma að þar hafi fremur ráðið sú athygli sem fór í umfangsmiklar tillögur stjórnvalda til þess að greiða fyrir kjarasamningum.

Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, hafa haldið málinu mjög þétt að sér og aðeins örfáir vita hvað í frumvarpinu felst. Flestir, ef ekki allir, aðrir ráðherrar munu sjá frumvarpið fyrst á fundi ríkisstjórnarinnar.

Þar spilar fyrst og fremst inn í að frumvarpið getur haft áhrif á markaði og því ríkir þessi leynd yfir því. Aðeins sérvaldir aðilar hafa fengið að lesa frumvarpið yfir.

Efni frumvarpsins verður í kjölfarið kynnt fyrir stjórnarandstöðunni, en samkvæmt heimildum Fréttblaðsins hefði það verið gert í dag hefði náðst að fjalla um málið á ríkisstjórnarfundi á föstudag.

Bæði Bjarni og Sigmundur Davíð hafa boðað frumvarpið á yfirstandandi þingi. Rætt hefur verið um að setja á stöðugleikaskatt til að stýra því útflæði gjaldeyris sem losun fjármagnshaftanna hefur óhjákvæmilega í för með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×