Erlent

Fjörutíu þúsund flóttamönnum hleypt inn

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Á leið til Grikklands Hópur flóttamanna frá Afganistan kom til grísku eyjarinnar Kos í gær.nordicphotos/AFP
Á leið til Grikklands Hópur flóttamanna frá Afganistan kom til grísku eyjarinnar Kos í gær.nordicphotos/AFP
Flóttafólk Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti í gær áform sín um að deila 40 þúsund hælisleitendum, sem koma frá Sýrlandi eða Erítreu til Grikklands og Ítalíu, niður á hin aðildarlöndin.

Hljóti tillögur framkvæmdastjórnarinnar samþykki verða 24 þúsund flóttamenn fluttir frá Ítalíu en 16 þúsund frá Grikklandi. Þeim verður skipt niður á aðildarríki ESB eftir fólksfjölda þeirra og stærð hagkerfisins, þannig að fjölmennustu og auðugustu ríkin taka við flestum. Við skiptinguna er jafnframt tekið tillit til bæði atvinnuleysis hvers ríkis og fjölda þeirra hælisleitenda sem ríkin hafa þegar tekið við á undanförnum fimm árum.

Þannig er stefnt að því að Þýskaland taki við tæplega níu þúsund flóttamönnum, eða tæplega 22 prósentum þeirra. Frakkar taki við tæplega sjö þúsund manns en Spánverjar rúmlega fjögur þúsund. Ekki er reiknað með að Bretar taki við neinum, þar sem Bretland er ekki aðili að Schengen-samstarfinu.

Með þessu er vikið frá Dyflinnarreglu Schengen-ríkjanna, sem segir að afgreiða þurfi umsóknir hælisleitenda í því landi sem þeir koma fyrst til. Stefnt er að því að endurskoða þessa reglu, en hún er enn meginreglan sem stuðst er við.

Þessar aðgerðir koma til viðbótar fyrri tillögum framkvæmdastjórnarinnar um að aðildarríkin bjóðist til þess að taka við 20 þúsund manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×