Lífið

Finnur fegurðina í ljótleikanum

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Tanja Huld hefur unnið að línunni síðan síðastliðið vor.
Tanja Huld hefur unnið að línunni síðan síðastliðið vor. Vísir/Valli
Tanja Huld Levý Guðmundsdóttir, fata- og textílhönnuður, sýnir sína fyrstu fatalínu undir eigin nafni á HönnunarMars. Línan ber heitið Eitur í flösku og sótti Tanja meðal annars innblástur frá olíubrákum og flatfiskum.

„Nafnið á línunni kemur frá innblæstrinum, þetta byrjaði þannig að ég sótti innblástur í að kanna eigin fagurfræði,“ segir Tanja og bætir við: „Ég sækist voða mikið í einhverja tilfinningu, af hverju mér finnst eitthvað fallega ljótt. Ég fór að rifja upp svona þegar ég fann þessa tilfinningu fyrst, að finna fegurð í ljótleikanum,“ segir Tanja.

Innblásturinn fékk hún úr náttúrunni og sótti sér meðal annars efnivið í fjöruna. „Ég tók aðferðir Ernsts Haeckel, míns uppáhaldslistamanns, til fyrirmyndar, en hann er líka náttúrufræðingur,“ segir hún og bætir við: „Ég ákvað að vera vísindamaður í mínu verki. Fór niður í fjöru, tók sýni og skoðaði þau í víðsjá.“

Í fjörunni rakst Tanja á hvít skelbrot sem hún skoðaði nánar í víðsjá þar sem við henni blöstu allir regnbogans litir. „Þau minntu mig á olíubrák, eitthvað sem ég hef alltaf verið heilluð af. Ég skoðaði myndir af olíubrák í hafi, myndefni sem mér finnst ótrúlega fallegt en afleiðingarnar eru ógeðslegar.“

Innblástur úr ólíklegri átt barst henni úr heimildarmynd um neðansjávarlífverur. „Þar uppgötaði ég flatfiskinn, sem er eiginlega svona söguhetjan fyrir þessa línu. Hann er svolítið ógeðslegur en eiginleikar hans eru áhugaverðir, hann getur farið í dulargervi og varið sig fyrir hættum hafsins,“ segir Tanja en línan segir söguna af flatfiski sem lendir í olíubrák í hafinu og bregður sér í dulargervi.

Tanja leggur mikla áherslu á mynsturgerð og munu áhrif flatfisksins og olíubrákarinnar aðallega sjást í mynstrum og formum línunnar, en að henni hefur hún unnið síðan síðasta vor. „Þegar ég frétti af þemanu fyrir HönnunarMars, leikur, það er eitthvað sem heillar mig ótrúlega mikið og eitthvað sem ég tileinka mér þá fannst mér ég bara verða að taka þátt.“

Línan verður sýnd í gallerí Ekkisens klukkan sex þann 11. mars. Kári Einarsson semur hljóðverk fyrir sýninguna og Dj flugvél og geimskip spilar á opnuninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×