Sport

Ég vorkenni andstæðingi mínum í dag

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Atvinnumannaferillinn gæti ekki farið betur af stað hjá Gunnari Kolbeini sem vann alla fjóra bardaga sína á árinu.
Atvinnumannaferillinn gæti ekki farið betur af stað hjá Gunnari Kolbeini sem vann alla fjóra bardaga sína á árinu. fréttablaðið/valli
„Þetta var mjög öruggt,“ segir boxarinn Gunnar Kolbeinn Kristinsson, kallaður Kolli, en hann barðist í Helsinki um helgina. Það var hans fjórði bardagi sem atvinnumaður og hann er búinn að vinna alla sína bardaga.

Andstæðingur Kolla að þessu sinni var Litháinn Dimitrij Kalin­ovskij og rimma þeirra var ójöfn þó svo að Kolla hafi ekki tekist að rota hann eins og stefnt var að.

„Ég hef aldrei slegið neinn jafn oft í hausinn með hægri hendinni og þennan strák. Þetta var alveg ótrúlegt og það skildi enginn hvernig hann fór að því að standa þetta allt af sér. Hann fór aldrei í strigann. Ég vorkenni honum í dag,“ segir Kolli en hann lagði allt í þennan bardaga.

Marinn á hnúunum

„Ég er alltaf að bæta mig og þetta var líklega minn besti bardagi. Það sér varla á mér eftir bardagann. Nema á hnúunum eftir að hafa lent svona mörgum höggum á hann. Svo er ég líka bólginn í olnbogunum og spurning hvort ég hafi rifið eitthvað. Þetta er frábær byrjun á ferlinum. Þetta var fjögurra lotu bardagi en næst fer ég í sex lotu bardaga gegn erfiðari andstæðingi.“

Þessi bardagi kom upp með aðeins tveggja vikna fyrirvara. Bardagi Gunnars var sá fyrsti á stærsta bardagakvöldi í sögu Finnlands en tólf þúsund manns fylltu höllina til þess að fylgja sínum manni, Robert Helenius, sem var að keppa um Evrópumeistaratitilinn gegn Þjóðverjanum Frankie Franz Rill. Helenius vann þann bardaga og er því ósigraður Evrópumeistari.

Félagarnir Kolli og Robert Helenius eftir góða æfingu.
Það er gott samband á milli Kolla og Helenius og þeir æfðu saman ­síðustu vikuna fyrir bardagann. „Þetta var risakvöld og sýnt í sjónvarpi víða um Evrópu. Það var heiður að fá að byrja þetta flotta kvöld. Það var frábært að Helenius skyldi vinna en ég þekki hinn strákinn líka mjög vel. Hann sagði að þetta væri hans Rocky-stund en því miður var þetta bara Rocky I fyrir hann,“ sagði Kolli léttur en þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann æfir með Evrópumeistaranum.

„Helenius var ánægður að fá mig í æfingabúðirnar og við græddum mikið á því báðir. Ég þarf að fá að æfa með honum reglulega og það kemur til greina að ég fái að taka heilar æfingabúðir með honum. Það eru tveir mánuðir. Það yrði geggjað.“

Stefnir á sex bardaga

Kolli er að ljúka sínu fyrsta ári sem atvinnumaður og lauk því með stæl. Hann stefndi á að berjast fimm sinnum en náði fjórum bardögum. Hann ætlar sér enn meira á næsta ári.

„Þá er stefnan að ná sex bardögum og tvisvar með Helenius. Stefnan er að vera 10-0 eftir næsta ár og með sex rothögg. Þetta kvöld gaf mér mjög mikið fyrir framhaldið og sýnir mér að ég er á hárréttri leið. Ég fékk mikið hrós og þessi bardagi mun opna fleiri dyr fyrir mig. Svo fæ ég svolitla aukaathygli út á að vera Íslendingur. Sá eini í boxinu. Útlendingunum finnst þetta sérstakt,“ segir Kolli sem ætlar að hafa það gott um jólin.

„Ég mun borða hamborgarhrygg um jólin. Ég borða venjulega hátt í heilan hrygg sjálfur þannig að það er venjulega alltaf keyptur einn aukalega. Ég verð örugglega orðinn spikfeitur er ég byrja að æfa aftur eftir áramót,“ segir okkar maður léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×